136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:34]
Horfa

Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mig hafa svarað þessari spurningu í ræðu minni áðan. Ég er ekki andvígur svona breytingum í sjálfu sér en ég tel hins vegar að það þurfi að fara mjög vel yfir þær. Það fylgja því heilmiklir gallar að flytja prófkjör yfir á kjördaginn sjálfan. Menn þurfa að gera þetta upp við sig. Ég hef ekki endanlega gert það upp við mig. Ég vil ræða þetta betur en ég tel að þetta geti vel verið framkvæmanlegt ef fólk fær aðlögun og nægan tíma til að skilja hvað er í gangi, þetta þarf að gerast með talsverðum aðdraganda og almennilegri kynningu sem ekki hefur átt sér stað núna. Þetta mál dúkkar allt í einu upp í stjórnarsáttmála nýrrar minnihlutastjórnar. Hún er að reyna að knýja fram alls kyns mál þó að hún sé í minni hluta í þinginu og þetta mál var aldrei rætt í fyrri ríkisstjórn. Það kom mér satt að segja mjög á óvart að þetta mál skyldi allt í einu vera orðið eitthvert stórmál hér og þess virði að taka dýrmætan tíma þingsins í það.