139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 17/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

82. mál
[14:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við ræðum í einni beit níu mál sem byggja á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þrjú þeirra fjalla um umhverfismál, tvö um reikningsskilastaðla, eitt um neytendavernd, eitt um rafræna greiðslumiðlun, eitt um tryggingar skipaeigenda og enn eitt um upplýsingar við samruna og skiptingu hlutafélaga. Ég vil skora á hv. utanríkismálanefnd, sem fær þessi mál til skoðunar, að hún liggi vel yfir þeim og sömuleiðis þær nefndir sem þeim er vísað til vegna þeirrar reynslu sem við Íslendingar höfum haft af slíkum tilskipunum. Ég minni á tilskipun um eftirlitsstofnanir sem brugðust í hruninu. Ég minni á lög um hlutafélög og einkahlutafélög sem ekki hafa staðist og ég minni á tilskipun um innlánstryggingar sem valda því að við erum núna að lenda í gífurlegum vandræðum með Icesave.