139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 37/2010 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn.

235. mál
[14:55]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að hér er til umfjöllunar tillaga til þingsályktunar eða afgreiðsla tillögu til þingsályktunar að því er varðar tilskipun sem hefur það að markmiði að draga úr svonefndum stjórnsýslubyrðum í hlutafélögum hvað snertir gerð skýrslna og skjala og birtingu þeirra. Þetta atriði fékk nokkra umræðu.

Ég vek athygli á því sem segir í nefndaráliti utanríkismálanefndar þar sem vísað er til þess að fyrirhugað er frumvarp frá efnahags- og viðskiptaráðherra um þetta efni. Í nefndarálitinu segir m.a., með leyfi forseta:

„Fyrirhugað er að leggja frumvarpið fram á yfirstandandi þingi en samkvæmt texta athugasemda við tillöguna er ætlunin að ganga umfram skyldu á grundvelli ákvæða tilskipunarinnar og gera jafnframt breytingar á lögum um einkahlutafélög …“

Þegar þetta mál kemur til umfjöllunar í hv. viðskiptanefnd þarf að fara vel yfir nákvæmlega þetta atriði, hvort við erum að ganga lengra en tilskipunin segir raunverulega til um og hvort tilefni sé til þess. Það er okkur í sjálfsvald sett að taka sjálfstæða ákvörðun um það þannig að ég vildi vekja athygli á þessu við afgreiðslu þessa máls.