139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

virkjun neðri hluta Þjórsár.

540. mál
[19:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef að mörgu leyti ekkert mjög ósvipuð viðhorf almennt til atvinnumála og hv. þm. Jón Gunnarsson. Ég er t.d. sammála honum um að það eigi með skynsamlegum hætti að nýta orkuauðlindirnar og ég er líka sammála honum um að þó að menn telji að fara eigi þá leið geti þeir samt sem áður verið bærilegir umhverfisverndarsinnar. Ég er ekki að lýsa því yfir að ég sé nein sérstök virkjanabulla, frú forseti, en ég er þeirrar skoðunar að sérstaklega á tímum eins og þessum eigi menn að skoða mjög alvarlega hvort ekki sé t.d. hægt að ráðast í stórframkvæmdir á sviði orkufrekra framkvæmda til að gefa atvinnulífinu svolítið vítamín. Ég er sammála hv. þingmanni um að það sé nauðsyn. Ég tel að eins og staðan er sé mikilvægt að menn bretti upp ermar og leiti allra leiða til að koma meiri hreyfingu á atvinnulífið en við sjáum núna.

Að öðru leyti verð ég að segja að ég er algerlega ósammála mörgu sem hv. þingmaður sagði og með hvaða hætti hann flutti mál sitt. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmann að koma hingað upp og kalla eftir samstöðu og halda að hv. iðnaðarnefnd sé einhvers konar eyland í þinginu og bjóði mönnum upp á trakteringar eins og „vond kommúnistastjórn“. Það er ekki leiðin til að fá framkvæmdasinnaða þingmenn til að taka á með honum. Þeir gera það heldur hver með öðrum en að gangast við slíkum munnsöfnuði.

Frú forseti. Ef það er svo sem hv. þingmaður segir að nauðsyn sé að ráðast í stórar framkvæmdir, eins og ég er honum sammála um, til að ná betri hreyfingu í æðakerfi þjóðarlíkamans, þá velti ég fyrir mér, er endilega nauðsynlegt að fara í virkjanir í neðri hluta Þjórsár? Er endilega nauðsynlegt að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir af hálfu hans og annarra þingmanna? Nefni ég þá sérstaklega tvennt. Ég veit ekki betur en fyrir norðan sé háhitasvæði sem menn hafa leyfi til að nýta á ákveðnum svæðum. Ég hef reyndar sagt í þessum stól að ég telji að það svæði eigi að vera stærra því ég tel að miklu meiri orkubirgðir sé að finna í Þeistareykjum en menn hafa sagt. Ég veit ekki betur en það hafi komið fram opinberlega, m.a. af munni hæstv. iðnaðarráðherra, að nokkrir aðilar hafi áhuga á því að nýta orkuna sem þar er að finna. Ég veit sömuleiðis ekki betur en Landsvirkjun hafi nýlega lýst yfir áhuga á að ráðast í að framleiða orku þar til að selja til slíkra verkefna. Hv. þingmaður sagði líka að það hefði aldrei verið jafnmikil eftirspurn eftir orku af þessum toga, hinni endurnýjanlegu, og einmitt núna. Ef aðaltilgangur hv. þingmanns er að ráðist verði í virkjanir í neðri hluta Þjórsár til að auka blóðstreymi í efnahagskerfinu þá spyr ég: Er ekki alveg eins gott að fara norður og ráðast í framkvæmdir þar? Það er í fyrsta lagi þessi röksemd sem mér finnst ekki halda hjá hv. þingmanni. Í öðru lagi fannst mér hv. þingmaður tala nokkuð óvarlega um hæstv. umhverfisráðherra. Hv. þingmaður gerði nefnilega mjög glögga og góða grein fyrir afstöðu sinni til nýtingar og náttúruverndar og hann hefur fullkomlega lögmætar skoðanir sem ég að mörgu leyti hallast til að styðja. En að sama skapi er ég þeirrar skoðunar að hæstv. umhverfisráðherra hafi fært rök fyrir afstöðu sinni og fullkomið lögmæti sé líka á bak við þær. Hér vegast á tvö ólík sjónarmið.

Nú vill svo til hvað varðar tæknilega útfærslu hæstv. umhverfisráðherra að dómstólar landsins hafa leitt það fram að það er hv. þm. Jón Gunnarsson sem hafði rétt fyrir sér um það hvort ákvörðun hennar á sínum tíma um að meina að setja virkjanir í neðri hluta Þjórsár á aðalskipulag stæðist lög. En hæstv. umhverfisráðherra gerði skilmerkilega grein fyrir því að hún taldi að á því léki vafi og þá er það svo að við höfum ákveðin tæki, tvenns konar, í landinu til að skera úr um slíkan ágreining. Það eru í fyrsta lagi lög okkar og í öðru lagi dómstólar. Núna liggur fyrir niðurstaða um það. Hæstv. umhverfisráðherra hefur í anda úrskurðarins nú þegar staðfest aðalskipulag með þessum virkjunum.

Þá vakna hjá mér tvær spurningar. Í fyrsta lagi kemur hv. þingmaður hingað og segir það undarlegt og að hann efist um að hæstv. umhverfisráðherra njóti trausts. Þá spyr ég hann: Af hverju lætur hann ekki reyna á það? Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að tala sig hásan úr þessum ræðustól um vonsku hæstv. umhverfisráðherra og hefur talað um að hún njóti hvorki trausts úti í samfélaginu né í þingsölum. Af hverju lætur Sjálfstæðisflokkurinn ekki reyna á það? Hann getur borið fram vantraust á hæstv. umhverfisráðherra. Hv. þingmaður veit svarið. Hæstv. umhverfisráðherra nýtur trausts þó að það kunni að vera, eins og alltaf er í góðum hjónaböndum, einhver ágreiningur um viðhorf til tiltekinna mála. Ágreiningurinn er samt sem áður ekki meiri en gerist í góðum hjónaböndum og ekki meiri en er að finna t.d. innan Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst það skjóta skökku við þegar hv. þingmaður kemur hingað og talar um pólitíska óvissu af því að hæstv. umhverfisráðherra kunni að hafa aðra skoðun en t.d. hæstv. iðnaðarráðherra. Er minni skoðanaágreiningur í flokki hv. þingmanns? Tökum bara það mál sem ég tel að sé að verulegu leyti ástæðan fyrir þeim dróma sem hv. þingmaður telur að hafi lagst yfir atvinnulífið, þ.e. Icesave. Er ekki himinn og haf milli skoðana mismunandi vængja Sjálfstæðisflokksins í því efni? Ég er ekki bara að tala um flokkinn eins og hann birtist okkur utan þingsala heldur líka innan þeirra þannig að ég bið hv. þingmann um að tala varlega í þessu efni.

Hin spurningin tengist neðri hluta Þjórsár og þeim ummælum sem hv. þingmaður hafði um hæstv. umhverfisráðherra og hún er þessi: Eftir að dómur gekk og hæstv. umhverfisráðherra staðfesti aðalskipulag með virkjunum, hvað kemur þá í veg fyrir að menn fari að lögum landsins og virki þar? Ekki eru það lögin. Ekki eru það sveitarfélögin. Ef orkukaupandi er til staðar og Landsvirkjun tekur um það ákvörðun sé ég í sjálfu sér ekki þörf á að samþykkja sérstakt frumvarp um það.

Ég ætla ekki að falla í þá freistni að halda því fram að tilburðir hv. þingmanns séu til að sýna virkjanasinnum í samfélaginu stélfjaðrirnar á sér. Ég ætla ekki að halda því fram að þetta sé sýndarmennska en ég er ekki sammála hv. þingmanni um að samþykkt þessa frumvarps sé í reynd nauðsynleg til að ná þeim markmiðum sem hann segir að felist í frumvarpinu. Ég undirstrika sömuleiðis að ef það er í öndvegi hjá hv. þingmanni að ráðast í þessa framkvæmd til að hreyfa betur blóðið í æðakerfi þjóðarlíkamans þá blasir við að hægt er að gera það með öðrum hætti á öðrum orkuríkum svæðum á landinu. Ég velti fyrir mér af hverju hv. þingmaður leggur ekki fram frumvarp um að þegar verði ráðist í að virkja fyrir norðan. Er það vegna þess að hann er þingmaður fyrir sunnan?

Ég er algerlega ósammála mörgu af því sem hv. þingmaður sagði um stöðuna í samfélaginu. Ég get fallist á að það væri óskandi og miklu jákvæðara ef við hefðum á borðinu spár um að hagvöxtur yrði meiri en það sem hv. þingmaður nefndi. Hann nefndi töluna 0,7%–2%. Það er rétt hjá honum að á því bili, reyndar örlítið hærra, liggja spár þeirra sem hafa metið stöðuna. Evrópusambandið metur hana líka en svolítið hærri, 2,5%. Evrópusambandið var eini greiningaraðilinn, svo ég noti það vonda orð, sem hafði rétt fyrir sér um hagvöxt í fyrra og var fjarri öðrum.

Hv. þingmaður segir af þessu tilefni að vonleysi ríki í samfélaginu. Það kann að vera að vonleysi ríki í Sjálfstæðisflokknum en það vill svo til að hægt er að skoða viðhorf fólks og menn hafa gert það. Menn hafa skoðað viðhorf almennings hér á landi til þeirrar stöðu sem hann býr við. Frú forseti, brestur mig minni eða var ekki fyrir skömmu birt könnun og samanburður á því hvernig fólk í hinum ýmsu löndum Evrópu þætti staða sín vera? Menn voru spurðir: Ertu ánægður eða óánægður með lífið? Út úr því kom afar merkileg niðurstaða. Í ljós kom að Ísland skar sig frá öllum öðrum löndum. Í kreppulandinu Íslandi sem nýbúið er að fara í gegnum mjög erfitt skeið og er nú að rísa upp aftur býr þjóð þar sem 99% voru ánægð með lífið.

Frú forseti. Sömuleiðis var gerð könnum um daginn þar sem spurt var um afstöðu fólks í ýmsum löndum til þess hvernig það upplifði atvinnuaðstæður sínar. Hér í landinu þar sem hv. þm. Jón Gunnarsson segir að ríki vonleysi kom í ljós að fyrir utan eitt land í Evrópu, Svíþjóð, er hvergi að finna í gervallri Evrópu þjóð sem er jafnánægð með atvinnuaðstæður sínar og Íslendingar. Þegar sömu þjóðir voru spurðar hvernig þeim þættu fjárhagsaðstæður sínar vera kom í ljós að Íslendingar voru í hópi þeirra fimm þjóða í Evrópu sem voru hvað ánægðastir með þær. Þegar spurt var í löndum Evrópu hvernig mönnum gengi að ná endum saman kom í ljós að Íslendingar voru í hópi þeirra sex þjóða sem töldu að þeim gengi best að ná endum saman. 78% Íslendinga sögðu að þeim gengi vel að ná endum saman. Þetta vil ég að komi fram vegna þess að mér finnst það sem hv. þingmaður segir ekki speglast í viðhorfum þjóðarinnar.

Ef ég má, með leyfi forseta, halda áfram að ryðja upp úr mér nokkrum könnunum af því að hv. þingmaður er að kikna undan oki vonleysisins þá deilir þjóðin ekki því vonleysi með honum. 5% íslensku þjóðarinnar telja að fram undan sé erfiðara ástand en það sem við höfum að baki. Þetta er veruleikinn eins og hann er mældur af stofnunum sem hafa það að atvinnu að mæla viðhorf fólks. Ég held að hv. þingmaður kunni að lifa í nokkuð annarri veröld en sú þjóð sem hann er að tala til yfir ræðupúlt Alþingis.

Þetta breytir ekki því að ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að skoða mjög vel stöðuna í hagkerfinu. Það er ágætt að framsýnir og framtakssamir þingmenn komi úr okkar röðum og velti fyrir sér hvort ekki þurfi að gera betur, ég tel að það þurfi að gera betur, og hverjar leiðirnar séu til þess.

Ég deili því með hv. þingmanni að hægagangurinn í atvinnulífinu stafi að verulegu leyti af þeirri óvissu sem nú ríkir um Icesave. Við vitum einfaldlega að okkur hefur ekki tekist að fá fjármagn til að fjármagna orkufrekar framkvæmdir þar sem öll leyfi liggja fyrir. Ég nefni Búðarháls sem dæmi. Okkur hefur ekki tekist enn að fjármagna það verkefni og beinlínis hefur verið sagt við þá sem sækjast eftir því að óvissa sé um Icesave. Menn benda á að þau fyrirtæki sem meta lánshæfi Íslendinga og annarra þjóða sem segja skýrum orðum að ef Icesave verði fellt í atkvæðagreiðslu muni lánshæfismat landsins rýrna. Ekki verður það til þess að okkur gangi betur. En við höfum Búðarháls, við höfum Hverahlíðarvirkjun og við höfum Þeistareyki. Þetta eru svæði sem er í reynd ekki stórkostlegur ágreiningur um að ráðast í að afla orku úr, en fjármagnið vantar.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um að mjög illa hefur gengið af hálfu bankanna að endurskipuleggja fjárhag lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Því var spáð fyrir tveimur árum að 7 þús. fyrirtæki mundu hrapa fyrir ætternisstapa. Ekkert af því rættist frekar en svo margar bölsýnisspár sem stundum eiga uppruna sinn í flokki hv. þingmanns. Hv. þingmaður segir að ríkisstjórnin þurfi að vinda bráðan bug að því að koma bönkunum til að ráðast í það verk. Hún gerði það. Hún gerði samkomulag við bankana sem fól í sér að þeir gengjust undir það jarðarmen að endurskipuleggja fjárhag 7 þús. fyrirtækja og ljúka því fyrir 1. júní. En ég get auðvitað tekið undir með hv. þingmanni að það gengur of hægt. En það er ekki hægt að segja að hlutur ríkisstjórnarinnar liggi eftir í því máli.

Ég undirstrika, frú forseti, að ég hef (Forseti hringir.) ákveðna samúð og skilning á málflutningi og markmiðum hv. þingmanns en ég er mjög ósammála því með hvaða hætti hann setur mál sitt fram. (Forseti hringir.)