144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

aðkoma ríkisstjórnar að kjarasamningum.

[15:23]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Forseti. Fjármála- og efnahagsráðherra er spurður að því í Fréttablaðinu í dag hvort ríkisstjórnin hefði getað brugðist fyrr við kröfum launafólks sem ljóst var fyrir löngu að mundi sækja launahækkanir um þessar mundir. Í viðtalinu viðurkenndi fjármálaráðherra, með leyfi forseta, „að menn hefðu átt að standa þéttar saman í aðdraganda þess að kjarasamningar renna út“, og átti þá væntanlega við að ríkisstjórnin sjálf hefði getað verið betur undirbúin fyrir samningaviðræður og verkföll sem nú tröllríða samfélaginu.

Þetta vekur athygli, hæstv. forseti, nú þegar viðræður launafólks við ríkið hafa strandað trekk í trekk. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hann deili þessari skoðun með fjármálaráðherra og ef svo er, hvers vegna ríkisstjórnin var svona illa undirbúin þegar morgunljóst var hvenær kjarasamningar við ríkið á almennum markaði rynnu út.