144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta tekur á sig enn skrýtnari myndir. Hér er hrópað á hæstv. forsætisráðherra. Eins og þingmenn vita þá er kerfi hér í húsinu þar sem þingmenn geta hlustað á ræður og hæstv. forsætisráðherra er hér í hliðarsal. Ég skil ekki hvers lags æsingur þetta er og hvað er verið að blása upp.

Virðulegi forseti. Ég er undrandi á þeim munnsöfnuði sem þingmenn hafa um einn ákveðinn aðila, sem er hæstv. forsætisráðherra, án þess vera beinlínis víttir fyrir, ég verð að segja eins og er. (Gripið fram í.) Ég velti því fyrir mér til hvers þessi dagskrárliður í þinginu er notaður, í. Hér er ekkert sem felst í því að þingmenn séu að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta heldur er verið að níða skóinn af hæstv. forsætisráðherra.

Það sem hann sagði, með leyfi forseta, í ræðu var: „Hér sé ég að hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, biður um að ræða fundarstjórn forseta og það kemur mér ekki á (Forseti hringir.) óvart í þessu tilfelli.“

Og hv. þm. Árni Páll Árnason kom hér upp og játaði það að hafa tjáð sig við fjölmiðla út úr þessum trúnaðarhópi.