149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

Þjóðgarðastofnun og þjóðgarðar.

778. mál
[18:57]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að ég hefði verið nægilega skýr í máli mínu. Ég var ekki að kvarta yfir því að við hefðum þennan kaleik heldur var ég að kvarta yfir því að hann væri of þungur. Af hverju var ég að því? Það er vegna þess að við eyðum tíma okkar í Þingvallanefnd að véla um hvort það eigi að kaupa sumarbústaðinn X og fara í gegnum pappíra, við þurfum að svara því hvort það eigi að skipta rotþróm út á tilteknum stað eða eitthvað slíkt. Það sem gerist, ef þetta frumvarp verður að lögum, er að þetta hverfur frá Þingvallanefnd. Og hvað verður eftir, hv. þingmaður? Það verður stefnumótun þar sem Þingvallanefnd hefur svo mikinn rétt að ekki er hægt að samþykkja hana t.d. án samþykkis Þingvallanefndar. Við munum líta yfir fjárhagsáætlanir hvers árs. Við munum ráða yfir þinghelginni. Það verður ekkert gert á þinghelginni án tilvistar Þingvallanefndar, sem segir já. Við skulum vera alveg klár á því hvað ég átti við.

Hitt, að sjá hættur í því að taka hluta af þessum hlutverkum Þingvallanefndar frá henni og skilja það sem er mikilvægt eftir, finnst mér bara vera styrking Þingvallanefndar en ekki öfugt.