150. löggjafarþing — 94. fundur,  28. apr. 2020.

sjúkratryggingar.

701. mál
[18:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Í fyrsta lagi varðandi stöðu sjúkratryggingastofnunar gagnvart öllum þjónustuveitendum til framtíðar liggur það fyrir að sjúkratryggingastofnunin hefur það hlutverk, ekki bara í heilbrigðisstefnu heldur í gildandi lögum um stofnunina. Þó að lögin séu orðin tíu ára gömul var sýnin alltaf sú að sjúkratryggingastofnunin hefði það hlutverk að annast kaup á heilbrigðisþjónustu, ekki bara af einkaaðilum heldur líka af opinberum aðilum. Það er mitt mat að það sé afar mikilvægt að í ákveðnum skilningi séu sömu mælistikur og sömu mælikvarðar lagðir á þessa þjónustu, óháð því hver þjónustuveitandinn er. Það þýðir töluvert umfangsmeiri verkefni á könnu sjúkratryggingastofnunar en er í dag en það er mín framtíðarsýn að svo verði og það er í samræmi við heilbrigðisstefnu.

Hv. þingmaður spyr líka um aðkomu Persónuverndar á fyrri stigum. Ég þekki þessa umræðu og þetta snýst um aðkomu að frumvarpssmíð í svo mörgum málaflokkum að Persónuvernd telur að rétt væri að hafa persónuverndarsjónarmiðin að leiðarljósi fyrr í ferlinu. Við gerð frumvarpsins er þess freistað að koma til móts við allar þær athugasemdir sem Persónuvernd kom með við meðferð málsins til að tryggja að persónuverndarsjónarmiðin væru klár og til þess að það væri bara takmarkaður hópur eða tilteknir starfsmenn sem gætu farið með þessi gögn o.s.frv. Við teljum að þar sé þeim sjónarmiðum nægilega til haga haldið.

Varðandi stjórnina snýst þetta í raun og veru um það að í ljósi þess að ráðherrann ber ábyrgð á því að skipa forstjórann og forstjórinn ber beina ábyrgð gagnvart ráðherra, eins og er með allar aðrar stofnanir, er það pínulítið hjáleitt að t.d. viðtöl við umsækjendur um forstjóraembætti séu (Forseti hringir.) hjá stjórninni sem síðan gerir tillögu við ráðherra en ráðherrann standi þá frammi fyrir tiltekinni niðurstöðu án þess að hafa haft aðkomu að henni. Síðan verður til þetta samband milli ráðherra og forstjóra eins og alls staðar annars staðar. Ég hefði haldið að ábyrgðarkeðjan yrði skýrari þannig en með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu.