Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

stefnumótun í fiskeldi.

[15:23]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er einmitt vegna þess að skýrslan hefur verið kynnt sem grunnur stefnumótunarferlisins sem ég hygg að það sé mjög brýnt að ráðuneytið og hæstv. ráðherra taki mið af þeim ábendingum sem m.a. hafa komið frá Landvernd og fleiri hagaðilum um þessi efni þegar kemur að langtímastefnumótun. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að nota þetta tilefni til þess að láta umhverfissjónarmiðin njóta sannmælis í þessari atvinnugrein þannig að atvinnugreinin byggist á faglegum, umhverfislegum sjónarmiðum.

Að lokum langar mig líka að skjóta inn spurningu til hæstv. ráðherra um tekjuöflun. Það hefur komið fram að að sjálfsögðu þarf að taka gjöld af fyrirtækjum svo að hægt sé að sinna opinberu lögbundnu eftirliti. En hvað hefur ráðherrann hugsað sér um gjald fyrir aðgang að auðlindinni?