Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

stefnumótun í fiskeldi.

[15:25]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið þá koma fram í skýrslunni ýmis atriði sem eru ekki endilega tillögur heldur frekar grundvöllur að tillögum eða stefnumótun og þar er m.a., svo maður láti skýrsluna algerlega njóta sannmælis, mjög víða talað um að það þurfi að efla vísindarannsóknir á öllum þeim sviðum sem liggja þarna til grundvallar. Það er lögð er áhersla á eftirlit og að efla stjórnsýslulega innviði til þess að geta síðan aukið verðmætasköpun. Þarna eru auðvitað heilmiklar áskoranir á ferðinni, ekki síst þegar atvinnugreinin er komin á fullt skrið.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um gjaldtökuna og ég hef sagt, hvað varðar fiskeldisgjaldið, að núna er í gildi löggjöf sem var samþykkt 2019. Í henni er áskilið að fram fari endurskoðun á löggjöfinni fyrir 2024 og ríkisendurskoðandi hefur jafnframt lagt á það áherslu. Í tillögu um fjármálaáætlun, (Forseti hringir.) sem liggur núna fyrir þinginu og verður rædd áfram í dag og á morgun, er fjallað sérstaklega um tekjuöflun af greininni.