Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

[15:36]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Þetta er skemmtilega keimlíkt orðaskiptum sem við áttum hér fyrir nokkrum vikum, ég og hv. þingmaður, en mér er það bæði ljúft og skylt að svara honum aftur sömu spurningum og voru bornar upp þá.

Í fyrsta lagi þá liggur það algerlega fyrir að sú sem hér stendur stendur með strandveiðum og hefur alltaf gert. Í öðru lagi liggur það líka fyrir að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar liggur til grundvallar ákvörðunum, hvort sem er í stóra kerfinu eða í því kerfi sem lýtur að þessum félagslegu þáttum.

Ég skil hv. þingmann þannig að hann sé að leggja til að taka tiltekna hluti fiskveiðistjórnarkerfisins út úr meginreglunni um takmarkaðar veiðar. Það er auðvitað tillaga út af fyrir sig en sjálf er ég ekki þeirrar skoðunar að það eigi að gera það. Ég tel að það skipti máli að halda samhengi milli ráðstafana í kerfinu, hvort sem er í stóra kerfinu eða í félagslega kerfinu, á grundvelli ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar. Ef það er spurning hv. þingmanns þá er því fljótsvarað.

Að öðru leyti er auðvitað alltaf leitt að valda þingmönnum vonbrigðum. En þó verð ég að segja að ég tel sjálfa mig betur til þess fallna en hv. þingmann að gera grein fyrir stefnu VG.