Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:05]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin leggur nú fram fjármálaáætlun sem sýnir í senn sókn á mikilvægum sviðum en um leið varkárni og ábyrga fjármálastjórn á verðbólgutímum. Síðustu ár hafa stjórnvöld markvisst unnið að því að mæta þörfum samfélagsins og aukið verulega framlög til flestra málefnasviða. Nú þegar verðbólga og háir vextir ríkja er mikilvægt að sýna varkárni í útgjöldum en um leið halda lykilverkefnum áfram.

Ráðuneyti innviða ber ábyrgð á ráðstöfun ríflega 540 milljarða kr. á tímabili áætlunarinnar eða um 7,6% af heildarútgjöldum ríkisins. Á málefnasviði ráðuneytisins í samgöngu-, sveitarstjórnar- og byggðamálum og húsnæðis- og skipulagsmálum er bæði að finna sóknarfæri en einnig veikleika. Fjárfestingar í samgönguinnviðum hafa verið með mesta móti síðustu ár og verulega bætt í viðhald vega. Þrátt fyrir það er enn uppsöfnuð viðhaldsþörf og hvar sem ég fer um landið eru miklar væntingar um vegabætur. Áskorunin núna er að ná niður verðbólgunni og það verður ekki gert með því að spýta í fjárfestingar þó að sá sem hér stendur vilji ekkert frekar sjá en vegavinnutæki á fullum afköstum um land allt. Kostnaður við framkvæmdir er mikill og hefur vaxið um þessar mundir og ljóst að eitthvað þarf að láta undan í slíku árferði. Það er verk okkar hér í þinginu að ná saman um stefnu næstu ára og forgangsröðun. Ég hef fulla trú á því að okkur takist í sameiningu að vinna vel úr þröngri stöðu þegar endurskoðuð samgönguáætlun kemur til meðferðar í þinginu á næstu vikum.

Að því sögðu er fjárfestingarstigið enn nokkuð hátt en gert er ráð fyrir að verja um 150 milljörðum kr. í framkvæmdir og viðhald vega næstu fimm árin. Við það bætast óbein framlög sem standa utan fjármálaáætlunar og tengjast samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, samvinnuverkefnum og jarðgöngum. Það verður því eitthvað um borðaklippingar og fögnuði með kaffi og kleinum á næstu árum.

Talandi um væntingar — það fer enginn varhluta af umræðunni um þörf á aukinni þjónustu í vegakerfinu. Samstaða er um það á meðal atvinnuveganna og almennings. Verulegu fjármagni er veitt nú þegar í þjónustu og áframhald verður á því með um 33 milljarða kr., sem eru til ráðstöfunar á næstu fimm árum. Þeir fjármunir gefa ekki svigrúm til meiri þjónustu en veitt er í dag.

Ég vil líka nefna endurskipulagningu á rekstri alþjóðaflugvalla landsins og uppbyggingu þeirra með það að markmiði að þeir geti betur nýst sem varaflugvellir lokist Keflavíkurflugvöllur. Fjöldi ferðamanna er að aukast og spáir Isavia því að um 8 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll í ár sem yrði þá þriðji mesti fjöldi ferðamanna frá upphafi. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að 8 milljarðar bætist við á fimm ára tímabili með tilkomu varaflugvallargjalds en frumvarp þess efnis verður rætt hér í þinginu á næstu dögum.

Eitt stærsta áherslumálið í stjórnarsáttmálanum er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir þær miklu sveiflur sem hafa einkennt hann síðustu ár. Staðan kallar á samstillt átak og ég fagna því að ríki og sveitarfélög hafi nú náð saman um sameiginlega framtíðarsýn á mikilvægustu verkefnin sem fram undan eru í rammasamningi um að auka framboð nýrra íbúða til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf. Samningurinn markar tímamót og varðar okkur leiðina í húsnæðisuppbyggingu komandi ára. Aðstæður á húsnæðismarkaði hafa gjörbreyst á síðustu mánuðum og vísbendingar eru um að byggingaraðilar haldi að sér höndum.

Stjórnvöld halda áfram að stíga myndarlega inn á húsnæðismarkaðinn með því að bjóða annars vegar upp á hlutdeildarlán og hins vegar stofnframlög til uppbyggingar íbúða. Það er ekki aðeins forsenda þess að fyrstu kaupendum og tekjulægri fyrst og fremst og leigjendum bjóðist húsnæði á viðráðanlegu verði heldur einnig að við stöndum ekki í sömu sporum og oft áður þegar vaxtakjör batna og eftirspurn eftir húsnæði eykst á ný. Þá má gera ráð fyrir tilheyrandi þrýstingi á húsnæðisverð og verðbólgu á nýjan leik ef framboð er ekki fyrir hendi. Á sama tíma og við tökum höndum saman til að ná verðbólgunni niður verðum við að tryggja eðlilega húsnæðisuppbyggingu eða sem nemur um 3.500 íbúðum á ári næstu tíu árin. Þótt sá fjöldi náist ekki árlega í upphafi tímabilsins breytir það ekki uppbyggingaráformum okkar fyrir tímabilið í heild sinni. Með samningum við sveitarfélög á grundvelli rammasamnings er verið að tryggja að það verði nægt framboð byggingarhæfra lóða á sama tíma og við erum að ryðja úr vegi öðrum hindrunum sem hafa staðið húsnæðisuppbyggingu fyrir þrifum. Til að fylgja þessu eftir stendur nú yfir vinna við húsnæðisstefnu, þá fyrstu sinnar gerðar, sem mun skýra línurnar á þessu sviði til framtíðar. Þingsályktunartillaga um húsnæðisstefnu til næstu 15 ára ásamt fimm ára aðgerðaáætlun verður lögð fram í þinginu í haust. Til að markmið um jafnvægi á húsnæðismarkaði náist er einnig lögð áhersla á að einfalda stjórnsýslu, ná meiri samfellu í skipulagsferli og leyfisveitingum auk stafvæðingu skipulags. (Forseti hringir.)

Ég ætlaði að fjalla hérna aðeins frekar um skipulag og síðan um byggðamál en reyni að koma því að í svörum við einstaka þingmenn þar sem tíminn er búinn.