Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:41]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég ætla að byrja á því að fjalla um starfsemi Hafrannsóknastofnunar. Það liggur algerlega fyrir að hún er alger kjarnastofnun í íslenskum sjávarútvegi og raunar í íslensku stofnanaumhverfi þar sem við byggjum okkar nýtingu á sjávarauðlindinni á þeirri þekkingu sem þar hefur byggst upp. En um leið þá liggur það algerlega fyrir að ráðgjöf Hafró um afla er ekki bara mikilvæg fyrir vistkerfisnálgun varðandi auðlindir sjávar heldur líka vegna orðspors sjávarafurða í markaðslegu tilliti þar sem Hafró er í auknum mæli að miðla upplýsingum til kaupenda íslenskra afurða. Ég vil undirstrika þennan þátt vegna þess að eins og hv. þingmaður bendir á þá er hér gert ráð fyrir umtalsverðum fjármunum þar sem við erum að auka áherslu á hafrannsóknir. Við þurfum að hafa sterkan vísindalegan grunn þegar við erum að taka ákvarðanir um nýtingu sjávarfangs. Við höfum séð það og sáum það á góðri úttektarskýrslu Jóhanns Sigurjónssonar að við höfum verið að dragast aftur úr löndunum í kringum okkur hvað þetta varðar og þurfum að gera umtalsvert betur þarna. Ég þakka hv. þingmanni því fyrir að nefna Hafró sérstaklega. Varðandi endurskoðun á lögum um veiðigjald þá er það rétt að það kemur fram í áætluninni að sú endurskoðun er unnin í samhengi við verkefnið Auðlindin okkar, sem hv. þingmaður þekkir. Þar er verið að vinna frekari greiningar á útfærslum með það fyrir augum að einfalda kerfið en ég held að engum dyljist að það er mikilvægt þar að sækja meira fjármagn til útgerðarinnar í sameiginlega sjóði.