Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:12]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Mig langar kannski að nálgast þetta frá því sjónarmiði að ég held að það sé takmarkað gagn í þeirri nálgun að tefla landbúnaðinum, innlendum bændum, og neytendum fram sem einhvers konar pólum. Ég er ekki að vísa til orða hv. þingmanns heldur frekar kannski umræðunnar í samfélaginu. Ég held að það sé mikilvægt að við gætum að því að neytendur, hvaða nafni sem þeir nefnast, hvort sem þeir eru hér á höfuðborgarsvæðinu eða hvar þeir eru staddir, eru háðir bændum innan lands og erlendis oft á dag. Við erum í samskiptum við bændur allt frá því að við setjum morgunkornið í diskinn á morgnana og hellum mjólkinni út á, eða hvað við gerum við það, eða fáum okkur kaffibolla. Þetta eru alltaf og alls staðar bændur. Á sama hátt eru bændur algjörlega háðir neytendum með sína vöru. Ég held að þetta sé bara, rétt eins og umræðan um þéttbýli og dreifbýli, um þessa ólíku hagsmuni í pólitíkinni. Og ég held að margir flokkar hafi raunar nærst á því að stilla þessu upp sem einhvers konar andstæðum. Ég held að við verðum að fara út úr þessari nálgun. Ég held að við verðum að fara inn í það að landbúnaðurinn sé mikilvægur fyrir okkur öll.

Svo vil ég segja, af því að hv. þingmaður vísar sérstaklega til tolla á verðlag o.s.frv., að landbúnaður nýtur að jafnaði stuðnings frá hinu opinbera. Hann gerir það nánast alls staðar. Ef við förum hins vegar í að skoða núna á verðbólgutímum breytingar á vöruverði, eins og t.d. á kjúklinga- og svínakjöti eða mjólk ef því er að skipta, þá stendur Ísland betur en flest lönd í Evrópu.