Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Það er rétt að umsvif utanríkisþjónustunnar og þeirra verkefna sem undir ráðuneytið heyra hafa aukist. Verkefnunum hefur fjölgað, ný hafa komið inn og svo erum við, eins og hv. þingmaður nefndi, sem betur fer farin að gera betur í þróunarsamvinnu en við gerðum áður. Það er ekkert rosalega langt síðan við urðum sjálfstæð. Ef maður lítur á það heilt yfir og yfir lengri tíma þá er það ekki langur tími og við tókum ábyrgð í skrefum. Ég ætla að halda því fram að við séum á ákveðnum sviðum enn þá aðeins að fullorðnast. Ég ætla ekki að segja að við séum unglingar, við erum alveg fullorðin, en við erum enn þá aðeins að fullorðnast. Það kostar fyrir smáríki að vera fullvalda og sjálfstætt. Ég held að reikningur okkar, fyrir því að fá að vera sjálfstæð og fullvalda, sé mjög lágur í samanburði við margar aðrar þjóðir, m.a. vegna þess að við njótum mjög góðs af alþjóðakerfi og alþjóðasamvinnu, þar sem við erum í samstarfi við aðra, og líka vegna þess að við höfum komið því þannig fyrir og haft fólk við stjórnvölinn sem tók að mínu mati farsælar og réttar ákvarðanir þegar við skipuðum okkur sess meðal stofnaðila að Atlantshafsbandalaginu og tökum virkan þátt í alþjóðasamstarfi sem við njótum mjög. Við erum hins vegar með hagræðingarkröfu eins og hinir og þurfum að taka við henni. (Forseti hringir.) En það er mjög erfitt að stilla upp viðkvæmum hópum á Íslandi andspænis því hvort við eigum að sinna því að vera fullvalda og sjálfstæð.