Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:44]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Já, það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir, það vantar ekki tilefnin. Útblástur gróðurhúsalofttegunda eykst bæði á Íslandi og á heimsvísu og við þurfum að taka okkur á og við þurfum að minnka þessa losun, þennan útblástur. Það sem er kannski mikilvægast í því er varðar fjárlagagerðina og fjármálaáætlunina sjálfa er einmitt að þessir mælikvarðar sem hæstv. ráðherra nefnir liggi fyrir og að það sé með gagnsæjum hætti hægt að lesa það út úr plagginu hvað við erum að gera, í hvað útgjöldin fara, tímasettar aðgerðir og magngerðar eða það tölusett þannig að fólk sjái tiltölulega auðveldlega hvaða árangri við erum að ná eða hvort við erum að ná þeim árangri sem við höfum stefnt að.

Af því að hæstv. ráðherra nefnir hér loftslagsvísa atvinnulífsins, sem ég bíð spennt eftir að heyra meira um, þá er mjög mikilvægt að stjórnvöld, auðvitað í samvinnu við atvinnulífið, geri kröfurnar um minnkun losunar, m.a. með kröfum um bestu fáanlegu tækni t.d. í álverum eða annarri stóriðju og svo sem í öllum öðrum iðnaði eða öðrum atvinnugreinum sem losa gróðurhúsalofttegundir. Og það á auðvitað við líka í samgöngum. Hæstv. ráðherra nefnir hér að það sé ekki markmið í sjálfu sér að hafa útgjöldin há og ég skil hvað hann segir með tilliti til skattaívilnana, t.d. vegna rafmagnsbifreiða, en ég held hins vegar að það ætti að vera sérstakt markmið stjórnvalda að verja hærri upphæðum til uppbyggingar almenningssamgangna. Það væri gott að sjá þess stað í þessari fjármálaáætlun að það væri hluti af stóra planinu, af því að við þurfum auðvitað að gera miklu betur þar líka.