Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:49]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. Síðustu misseri hafa verið alls konar, vægast sagt, og ríkisstjórnin hefur þurft að standast mörg hraðpróf og hefur gert það með láði. Okkur hefur tekist að ná góðum árangri og draga úr halla ríkissjóðs þrátt fyrir erfitt umhverfi. Fyrir hálfu öðru ári var það markmið sett í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar að stöðva hækkun skulda sem hlutfall af landsframleiðslu eigi síðar en 2026. Verðbólga og háir vextir eru ógn sem við verðum að bregðast við. Fjármálaáætlun ber þess merki að ríkisstjórnin ætli að takast á við það verkefni með þeim verkfærum sem best eru til þess fallin. Gangi núverandi áætlanir eftir verður batinn til þess að ríkissjóður heldur nokkuð aftur af eftirspurn og þar með verðbólguþrýstingi árið 2023.

En alltaf eru næg verkefni og öll jafn mikilvæg. Við höfum rækilega verið minnt á hversu mikilvægt er að verja byggðir landsins fyrir ofanflóðum eftir snjóflóðin fyrir austan í vetur, aurskriður á Seyðisfirði og snjóflóð á Flateyri árið 2020. Þökkum fyrir að mannslífum var þyrmt en krafan er sú að við verðum að flýta ofanflóðavörnum þar sem þær hafa verið á áætlun.

Virðulegi forseti. Eftir snjóflóðin á Flateyri í janúar 2020 fór fram endurskoðun á ofanflóðavörnum vítt og breitt um landið og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort fjármálaáætlun tryggi ekki framgang áætlana um ofanflóðamannvirki og uppbyggingu á þeim vítt og breitt um landið.