Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:24]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir fyrirspurnirnar og kannski byrja á því sem hv. þingmaður endaði á varðandi landverðina. Ég er sammála hv. þingmanni, ég held að nálgunin eigi að vera aðeins öðruvísi. Við sjáum það að á mjög mörgum svæðum er landvarsla algjörlega nauðsynleg. Ég verð að nefna hér Fjaðrárgljúfur, það er svo auðvelt fyrir mig að tala um það af því ég þekki það prýðilega en það er svo sannarlega ekki tæmandi. Þar t.d. verður virk landvarsla að vera til ef við ætlum ekki að sjá miklar skemmdir á þessari viðkvæmu náttúru, sem er ekkert uppi á hálendinu heldur bara niðri á láglendinu, en þannig er nú bara íslensk náttúra. Ég held að nálgunin hljóti að vera þessi, að við þurfum að vernda íslenska náttúru og á sama tíma viljum við njóta hennar. Við erum að fara í miklar stofnanabreytingar, sem ég var ekkert að ræða áðan, m.a. til þess að nýta þann mannauð og þau tæki sem við höfum til að vernda íslenska náttúru en sömuleiðis að búa til hér upplifun fyrir þá sem hingað vilja koma og Íslendinga sem vilja ferðast. Það gerist ekki ef við skemmum þessar náttúruperlur sem við höfum, þannig að landvarsla er alveg nauðsynleg. Ég skal hins vegar alveg viðurkenna að mér finnst allt í lagi að hugsa aðeins um það að það er ýmislegt sem landverðir gera sem ég held að verði að gera en fer mikill tími í, eins og t.d. þessi gígantíska salernisvarsla sem er hérna úti um allt land. Ég leyfi mér að hugsa um hvort við gætum fundið einhverjar betri leiðir til þess að sinna því, því það er svo sannarlega nauðsynlegt líka. Svo er það þessi áhersla mín á það að þegar kemur að friðlýstum svæðum og þjóðgörðum þá verðum við að vera með nærsamfélagið með okkur. Þá náum við bestum árangri og við höfum mýmörg dæmi um það.

Hv. þingmaður verður að fyrirgefa að ég komst ekkert í hina spurninguna vegna þess að það sem hv. þingmaður er að spyrja um (Forseti hringir.) hér er mér mjög hugleikið og ég vildi gjarnan ræða mikið um það, en við höfum örugglega tækifæri til að ræða hina spurninguna seinna.