Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:14]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fagna þessari úttekt sem verið er að ræða um. En hér er ég eingöngu að spyrja um bankaskatt en ekki 1% skatt á alla lögaðila, enda hafa ekki allir hagnast jafn mikið og geigvænlega og bankarnir. Staðreyndin er sú að þjónustugjöld bankanna hafa bara hækkað og þjónusta þeirra minnkað að sama skapi, ekki hvað síst á landsbyggðinni. Þessi afsláttur ríkisins, upp á 9,4 milljarða, hefur einfaldlega runnið beint í eigin vasa bankanna án þess að neytendur hafi notið góðs af þeim á nokkurn hátt. Í raun ætti þessi skattur að vera mun hærri en hér er lagt til, a.m.k. ná 1–2%, enda þætti flestum fyrirtækjum það vel sloppið. En þar sem 0,376% hafa staðið í ríkisstjórninni hingað til er væntanlega ekki ráðlegt að leggja meira á hana í bili.

En hvað með samfélagslega ábyrgð bankanna? Er hún engin? Nú er enn og aftur verið að veita fjármuni heimilanna til bankanna í bílförmum án þess að nokkur krafa sé á þá að veita nokkuð á móti. Þeir fá að taka og þeir fá að setja reglurnar. Sé reynt að setja einhver bönd á þá er verið að skerða samningsfrelsi og þá er svo sannarlega ekki verið að ræða um samningsfrelsi neytenda. Neytendur þurfa bara að taka þeim afarkostum sem bankarnir færa þeim því ekki er um aðra kosti að ræða, t.d. ef verið er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Nú stefnir í að bankarnir fari að hirða heimilin af fólki áður en langt um líður. Fyrst hirða þeir allt lausafé af fólki í formi afborgana af lánum og síðan, þegar það er allt uppurið, munu þeir koma eftir sjálfu húsnæðinu.

Ég spyr því hvað hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin sé að gera til að koma í veg fyrir það. Er ekki kominn tími til að setja kröfur á þessa fjársterku risa um að sýna samfélagslega ábyrgð, þó ekki nema með því að sýna fólki í tímabundnum erfiðleikum smámildi? Og kæmi til greina að setja auknar kröfur á Landsbankann, sem ríkið á, um samfélagslega ábyrgð? Væri það ekki til þess fallið að auka samkeppni á fjármálamarkaði ef einn banki myndi taka af skarið og sýna aukna samfélagslega ábyrgð? Hver myndi t.d. ekki vilja vera í viðskiptum við banka sem myndi lofa því að selja ekki húsnæðið ofan af fólki ef það lendir í greiðsluerfiðleikum heldur bjóða að fyrra bragði upp á úrræði til að leysa vandann eins og tíðkast víða í löndunum í kringum okkur frekar en að neytendur þurfi alltaf að fara bónleiðir til búðar í þeim efnum?