Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:27]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég kannast nú ekki við hvaða enn einn starfshóp hv. þingmaður er að vísa til og vísa því algerlega á bug. Það er hins vegar hárrétt sem fram hefur komið í máli hv. þingmanns að það kom út mjög öflug skýrsla árið 2018 sem við höfum verið að vinna með og það þarf ekki að finna upp hjólið þarna, það liggur fyrir hvað þarf að gera. Eins og ég nefndi áðan þegar ég var að svara þá hefur verið hik á mér varðandi það til að mynda að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði þó að það sé grundvallarsjónarmið mitt að ríkisfjölmiðill ætti ekki að vera á auglýsingamarkaði. En Ísland er öðruvísi en hin Norðurlöndin. Á hinum Norðurlöndunum voru ríkisfjölmiðlarnir aldrei á auglýsingamarkaði, alla vega ekki síðustu 30 árin eða svo, þannig að það var svolítill munur á því hér og þar og kann að skýra það af hverju við erum enn með tæp 50% af auglýsingatekjum á Íslandi, öfugt við t.d. Svíþjóð og Danmörku. Það kann að vera sem sagt að það sé jákvætt og þess vegna var ég ekki tilbúin til þess, jafnvel þótt ég hefði þessa persónulegu afstöðu til málsins. Mér fannst það ekki skynsamlegt, af því að það var svo mikið í húfi, að fara að taka einhver skref sem væru til þess fallin að veikja enn frekar auglýsingamarkaðinn, númer eitt.

Varðandi útfærslu á þessum tæpum 2 milljörðum sem munu renna á þessu tímabili til frjálsra fjölmiðla ofan á aðra 2 milljarða, sem er alveg nýtt vil ég nefna, þá erum við að vinna út frá því að þetta geti mögulega fallið undir almannaheillalöggjöfina og þess vegna þurfi ekki umfangsmiklar breytingar hvað það varðar. En ég tel mig vera nokkuð örugga um að við getum klárað þetta núna hratt og örugglega.