154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

916. mál
[13:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Frumvarpið felur annars vegar í sér tillögu um að vörsluaðila viðbótarlífeyrisparnaðar verði heimilað að verða við beiðni einstaklings um að iðgjaldi hans til séreignar verði í heild eða að hluta varið til fjárfestingar í tilteknum tegundum sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem rétthafi velur sjálfur. Þar undir falla samkvæmt tillögum frumvarpsins verðbréfasjóðir eða svokallaðir UCITS-sjóðir, sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta og peningamarkaðssjóðir.

Lagt er til að gerð verði krafa um að hlutir eða hlutdeildarskírteini í slíkum sjóðum skuli að beiðni vörsluaðila vera innleysanleg á hverjum tíma til að hann geti brugðist skjótt við beiðni eiganda sparnaðarins um breytingar á fjárfestingum. Jafnframt er lagt til að vörsluaðili skuli fara með beiðni einstaklings um val á sjóði eða sjóðum í samræmi við tiltekin ákvæði laga um markaði fyrir fjármálagerninga sem mæla fyrir um fjárfestavernd. Hins vegar felur frumvarpið í sér tillögu um að vörsluaðila verði heimilt að verða við beiðni einstaklings um að iðgjöld hans verði í heild eða hluta bundin í innlánum.

Verði frumvarpið að lögum hefur það í för með sér að eigandi séreignarsparnaðar mun sjálfur geta valið á milli fjárfestingarkosta til ávöxtunar sparnaðar síns, þó innan þeirra marka sem tillögur frumvarpsins fela í sér. Þannig standa vonir til að einstaklingar verði upplýstari um réttindi sín og hvernig iðgjöldum þeirra til séreignar er varið.

Tillaga frumvarpsins felur í sér heimildarákvæði. Því verður vörsluaðila ekki skylt að verða við beiðni einstaklings um að iðgjöldum verði ráðstafað til þeirra fjárfestingarkosta sem lagðir eru til í frumvarpinu, bjóði vörsluaðilinn ekki upp á slíka fjárfestingarleið. Geri hann það hins vegar fela tillögur frumvarpsins í sér að einstaklingur getur valið að binda séreignarsparnað sinn að hluta í þeim sjóðum sem ákvæði frumvarpsins mælir fyrir um og að hluta í innlánum eða t.d. að öllu leyti í innlánum, til að mynda við breytingu rétthafa á fjárfestingarkostum.

Þá tel ég rétt að það sé undir hverjum og einum komið hversu stóru hlutfalli af iðgjaldi til séreignar varið er til þeirra fjárfestingarkosta sem frumvarpið mælir fyrir um en vilji einstaklings kann að standa til að verja iðgjaldi til mismundandi fjárfestingaleiða hjá vörsluaðila.

Gildandi heimildir laganna setja vörsluaðilum engar takmarkanir á fjárfestingu í þeim fjárfestingarkostum sem frumvarpið mælir fyrir um. Hins vegar er talið rétt að eigandi iðgjaldanna geti haft virkari aðkomu að því hvernig fjárfestingu þeirra er háttað.

Líkt og kunnugt er bjóða vörsluaðilar einstaklingum nú þegar upp á fjölbreyttar fjárfestingarleiðir þegar kemur að ávöxtun iðgjalda til séreignar. Framboð ávöxtunarleiða fyrir iðgjöld til séreignar er því töluvert auk þess sem einstaklingar velja sjálfir vörsluaðila iðgjaldanna. Einstaklingur hefur því val um til hvaða vörsluaðila iðgjöld hans renna sem og ávöxtunarleið sparnaðarins en að öðru leyti hefur eigandi sparnaðarins ekki frekari aðkomu að því að taka ákvörðun um fjárfestingu iðgjaldanna.

Verði frumvarpið að lögum mun það leiða til þess að valfrelsi einstaklings um séreignarsparnað sinn eykst varðandi það hvernig fjárfestingu iðgjalda hans er háttað. Þó er ljóst að þeir einstaklingar sem hyggjast velja þá fjárfestingarkostir sem felast í tillögum frumvarpsins þurfa að hafa einhverja þekkingu á þeim fjármálagerningum sem þar eru lagðir til þannig að ákvarðanir þeirra um fjárfestingu stuðli að þeirri réttindaávinnslu sem þeir telja besta fyrir sig hverju sinni. Því legg ég til að heimild vörsluaðila verði takmörkuð við þá fjárfestingakosti sem taldir eru upp í tillögum frumvarpsins enda almennt talið að um fremur áhættulitla fjárfestingu fyrir einstaklinga sé að ræða auk þess sem að um hana skal ríkja fjárfestavernd sem og innlausnarskylda.

Virðulegi forseti Tillögur frumvarpsins um aukna fjárfestingarkosti viðbótarlífeyrissparnaðar má rekja til sáttmála um ríkisstjórnarsamstarfið þar sem lögð er áhersla á umbætur í lífeyrismálum. Þar kemur meðal annars fram að ríkisstjórnin hyggist renna styrkari stoðum undir lífeyriskerfið og stuðla að aukinni hagkvæmni og fjölbreyttari ávöxtunarleiðum. Nokkrum aðgerðum sáttmálans í málaflokknum hefur þegar verið hrint í framkvæmd, svo sem lögfestingu ákvæða um hækkun lágmarksiðgjalds í 15,5% og tilgreinda séreign. Þá er vinna hafin við gerð grænbókar um lífeyriskerfið auk þess sem ég hef lagt fram frumvarp sem ætlað er að auðvelda lífeyrissjóðum að koma að fjármögnun á íbúðarhúsnæði til langtímaleigu til einstaklinga og var rætt hér fyrr í dag. Meðal annarra markmiða sáttmálans er að auka við valfrelsi í viðbótarlífeyrissparnaði með fjölgun fjárfestingarkosta, sem ég mæli hér fyrir um í frumvarpi þessu.

Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umræðu að lokinni þessari umræðu.