154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

916. mál
[13:05]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það stendur yfir vinna að gerð grænbókar um lífeyriskerfið eins og hæstv. ráðherra þekkir. Þar er starfshópur skipaður af aðilum vinnumarkaðarins, fulltrúum lífeyrissjóða og fulltrúum stjórnvalda og ég held að það sé óþarfi að fjölyrða um mikilvægi þess að breytingar á löggjöfinni um lífeyrissjóðakerfið séu unnar í mjög breiðri sátt. Það liggur fyrir að Alþýðusamband Íslands, stærstu heildarsamtök launafólks á Íslandi, er á móti þessum breytingum sem hér eru lagðar til og telur þær ekki þjóna hagsmunum launafólks í landinu. Það liggur líka fyrir að stærstu samtök atvinnurekenda telja framlagningu þessa frumvarps ótímabæra á meðan þessi grænbókarvinna stendur yfir. Landssamtök lífeyrissjóða telja að þetta mál hafi ekki fengið nægilega rýni út frá hagsmunum sjóðfélaga og út frá neytendasjónarmiðum. Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar mjög áfram um þetta frumvarp. Þetta virðist vera sérstakt áherslumál hjá þeim flokki en ég hef ekki orðið var við að ákallið um svona lagabreytingar komi eitthvað sérstaklega frá sjóðfélögum, ég held að það séu frekar einstaka fjármálafyrirtæki sem eru að kalla eftir þessu og að það séu kannski fyrst og fremst þeir sem eru að taka við þóknana- og umsýslugreiðslum sem myndu fagna þessu. Þannig að ég vil bara spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna fær ekki bara grænbókarvinnan að hafa sinn gang áður en lagðar eru fram umdeildar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu í óþökk m.a. stærstu heildarsamtaka launafólks á Íslandi? Er þetta slíkt forgangsmál hjá Framsóknarflokknum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að það þurfi að keyra það hérna inn í óþökk m.a. þeirra aðila sem eru að taka þátt í þessu víðtæka samráði um framtíðarskipan lífeyrismála á Íslandi?