154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

umferðarlög.

923. mál
[13:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að bjóða hæstv. ráðherra velkomna aftur til starfa. Ég óska henni til hamingju með nýja ráðuneytið og óska henni velfarnaðar í þeim mikilvægu málefnum sem þar eru undir. Ég ætlaði samt að nota tækifærið þar sem ég sit ekki í umhverfis- og samgöngunefnd sem mun fá þetta frumvarp til umfjöllunar, að spyrja ráðherra örlítið út í það og kannski velta því upp hvort við gætum mögulega verið að ganga of langt í ákveðinni forræðishyggju sem hefði samt ofboðslega mikilvæg áhrif á markmið okkar um að auka notkun virkra samgöngumáta, eins og það er orðað en almenningur skilur kannski ekki neitt í, þ.e. að fjölga þeim sem annaðhvort ákveða að ganga, hjóla, nota hlaupahjól eða strætó í stað þess að fjölga endalaust einkabílunum á götunum okkar og auka við umferðina. Í því felst alveg ofboðslega mikil sókn, bæði út frá loftslagsmálum en líka út frá lýðheilsu- og umferðaröryggi. Það eru alveg ofboðslega stór og mikilvæg markmið sem við megum ekki missa sjónar á. Þannig að þegar við förum í svona — ég ætla að leyfa mér að segja að mér finnist þetta að einhverju leyti svolítið teknókratískar, fyrirgefðu, virðulegi forseti, svona tæknilegar lagabreytingar, þá langar mig annars vegar að spyrja ráðherra hvort hún óttist ekki að svo geti verið. En hins vegar langar mig líka bara að beina því til þeirra sem í nefndinni sitja að fara vel yfir það. Þannig að ég velti því upp hvort þessar breytingar, þó að hverja og eina þeirra væri mögulega hægt að flokka í þeim anda að hún stuðlaði að auknu umferðaröryggi eins og hæstv. ráðherra kom inn á — en þegar allt er saman komið og við horfum á stóru myndina, sem er mikilvægi þess að fólk nýti svona samgöngumáta í auknum mæli, hvort þessi markmið kunni að vinna hvert gegn öðru.