154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

922. mál
[16:34]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er einfaldlega sammála því að réttindagæslumenn fatlaðs fólks ættu frekar að vera vistaðir annars staðar heldur en undir félagsmálaráðuneytinu. Ég deili þeirri skoðun, enda hef ég verið fylgismaður þess að Mannréttindastofnun Íslands verði sett á fót og ég hef verið fylgismaður þess að réttindagæslan fari þangað undir. Þar erum við bara algjörlega sammála, ég og hv. þingmaður, og hljótum að vilja hjálpast að við að láta það gerast.

Hv. þingmaður spyr hérna út í endurgreiðslurnar. Þessar breytingar sem þarna er verið að gera eru til þess að færa lögin um réttindagæslumenn til samræmis við lögræðislögin. Ég held að við séum nú komin út á hálan ís ef við ætlum að gera sýslumönnum það að taka geðþóttaákvarðanir. Ég vona svo sannarlega að sýslumenn í landinu geri ekki slíkt.