154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

922. mál
[16:35]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kynninguna. Mig langar einnig að spyrja út í samfelluna milli þessa frumvarps og frumvarps til laga um Mannréttindastofnun Íslands, sjálfstæða mannréttindastofnun. Nú vill svo til að þær breytingar sem eru í þessu frumvarpi voru áður inni í því frumvarpi. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort ástæðan fyrir því að þetta hafi verið aðskilið með þessum hætti sé sú að ekki sé lengur samstaða um það að láta bæði málin ganga alla leið í gegnum þingið. Það vekur auðvitað sérstaklega upp spurningar nú þegar Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur látið enn eitt af sínum grundvallarmálum, sem ég leyfi mér að ætla að hafi komið þeim í þessa ríkisstjórn, í hendurnar á Sjálfstæðisflokknum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fer núna með sjálft ráðuneyti mannréttinda. Frumvarpið um Mannréttindastofnun Íslands var afgreitt frá ríkisstjórn, eftir því sem mér skilst, með fyrirvara frá Sjálfstæðisflokknum sem nú fer með ráðuneyti mannréttinda. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji raunverulegar líkur til þess að það frumvarp gangi fram, sem gengur ekki síst út á það að fullnægja okkar skyldum samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er aftur þessi spurning hvort ástæðan fyrir því að þessar tilteknu breytingar hafi verið teknar út úr því frumvarpi hafi verið sú að tryggja að þær næðu framgangi vegna þess að það væri útséð með hitt málið, það myndi sofna í nefnd.