132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Flutningur verkefna í heilbrigðisþjónustu út á land.

648. mál
[15:33]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að leggja orð í belg, m.a. vegna þeirrar framtíðarsýnar sem hæstv. ráðherra dró upp um skipulag heilbrigðisþjónustunnar um landið. Ég vara við þeim hugmyndum að ganga svo langt sem raun ber vitni í sameiningu stofnana. Það skapar alvarlegan vanda þegar starfsmaður getur ekki unnið lengur á stofnun vegna ósamkomulags við framkvæmdastjóra. Þá er viðkomandi starfsmaður þannig staddur að hann verður einfaldlega að flytja af svæðinu því hann getur ekki fengið vinnu hjá annarri stofnun. Þetta vandamál er þegar komið upp á höfuðborgarsvæðinu og óþarft að fara yfir það í löngu máli.

Annað sem ég vil nefna líka er sjúkraflugið sem nýlega var boðið út og ákveðið að miðstöð þess skyldi vera á Akureyri. Ég geri athugasemd við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að þjónusta Vestfirði frá Akureyri. Það eru ekki hagsmunir Vestfirðinga að sjúkraflug þeim til handa né sjúklinga frá Vestfjörðum til Reykjavíkur skuli þjónað með flugvél af Akureyri.