136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:40]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við erum að ræða breytingar á virðisaukaskattslögum sem lúta að því að framkvæmdir á byggingarstað fá hærra endurgreiðsluhlutfall af virðisaukaskatti. Ég tel að það sé mjög gott mál eins og komið hefur fram, bæði í fyrra andsvari mínu við hv. ræðumann Gunnar Svavarsson, og hjá öðrum hv. þingmönnum.

Ég vil geta þess, frú forseti, að tekið var fram í upphafi þeirrar umræðu að menn voru hvattir til að taka þátt í henni, vera viðstaddir hana og fylgjast með henni, en það hefur fækkað í salnum núna yfir hámatartímann þannig að ég vona að það viti samt ekki á að menn styðji ekki málið allt þó að það sé fátt um manninn inni í þingsalnum.

Málið snýst sem sé um endurgreiðslu á virðisaukaskattinum og ég vil ítreka að mikilvægt er að ávallt verði leitað þeirra leiða þar sem mest hagkvæmni fæst í þeim verkferlum sem um er að ræða. Ég óttast svolítið að útiloka eigi og mismuna því handverki sem unnið er á verkstæði eða á byggingarstað, að það muni leiða til þess að verkin geti orðið óhagkvæmari. Það vil ég ekki sjá. Ég vil að iðnaðarmenn og iðnfyrirtæki fái að nota hagkvæmustu leiðir til að vinna þau verk sem þarna um ræðir sem er viðhald á frístundahúsum og íbúðarhúsnæði.

Ég vil jafnframt beina því til formanns nefndarinnar að kannaður verði sá aukakostnaður sem óhjákvæmilegur er á landsbyggðinni þegar um er að ræða mikla flutninga. Flutningskostnaður, t.d. aksturskostnaður, er gríðarlega mikill í hinu dreifðu byggðum. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson hvort það hafi komið til tals og hvort það geti komið til greina að litið verði til þess. Það er alveg augljóst mál að t.d. þeir sem búa fjærst byggingarvöruverslunum eða þeim verktökum sem taka að sér svona verk, þurfa að leggja í mikinn kostnað sem er samfara því að koma efni og mannskap á byggingarstað. Öðru máli gegnir með slíkar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu þar sem allt er innan seilingar og nánast er hægt að nota strætisvagna til fólksflutninga á milli staða. Ég held að við þurfum að huga að því að þeim verði ekki mismunað sem hugsa sér að nota verksmiðjur sínar — þar hafa verið nefnd einingarhúsafyrirtæki bæði í steini og timbri, gluggasmiðjum, rafverktaka o.s.frv. — og þeim sem búa á landsbyggðinni. Það er mikilvægt að ekki verði mismunur milli landsbyggðarbúa og þeirra sem búa næst þeim þjónustufyrirtækjum sem hafa, eins og hv. þm. Gunnar Svavarsson nefndi, kítti, skrúfur og hvað það nú er sem þarf til svona verka. Það búa ekki allir við hliðina á byggingarvöruverslunum hér á landi, þess vegna tel ég að huga þurfi að þessu.

Komið hefur fram í umræðunni að fyrir liggur breytingartillaga um arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga, sem vinna utan byggingarstaðar, að virðisaukaskattur af þeirri vinnu sem fer ekki fram á byggingarstað fáist endurgreiddur. Ég vil geta þess að þó að þessar starfsstéttir búi við erfið skilyrði núna og þó að heilmikið atvinnuleysi sé á þeim vettvangi, verðum við að muna að það eru fleiri greinar, iðnmenntað fólk, verkafólk, sem búa við atvinnuleysi. Mér finnst eins og verið sé að taka þennan hóp út sérstaklega. Þess vegna held ég að við ættum að huga að því að hafa meiri breidd í þessu en ekki miða bara við þessar tilteknu starfsstéttir. Það ríkir atvinnuleysi víðar en í þessum tilteknu atvinnustéttum. Þess vegna tel ég að við eigum að skoða það — og þeir sem eru í viðkomandi nefnd — hvort ekki megi líta aðeins út fyrir þennan hóp til þeirra iðnmenntuðu og verkafólksins sem getur fengið vinnu við endurbæturnar þó að það sé ekki á byggingarstaðnum. Það finnst mér afskaplega mikilvægt að sé skoðað í nefndinni. Miðað við þær aðstæður sem við búum nú í landinu og það tekjufall sem við horfum fram á er auðvitað mikilvægt að við reynum að afla sem mests gjaldeyris. Við eigum jafnframt að horfa til gamla slagorðsins, íslenskt, já, takk! þannig að það frumvarp sem hér liggur fyrir nái yfir fleiri starfsstéttir án þess að brjóta lög Evrópska efnahagssvæðisins, það miðist við að við látum vinnuna fara fram innan lands.

Ég get, frú forseti, ekki farið úr ræðustól án þess að nefna að það er sjávarútvegurinn sem stendur á bak við stærstan hluta gjaldeyristekna okkar og orkuiðnaðurinn, áliðnaðurinn. Við eigum auðvitað að halda því starfi áfram. Við eigum marga kosti eins og að virkja frekar fallvötnin. Það getum við gert í þrepum í litlum einingum sem er enn kostur á að gera á Þjórsár/Tungnaársvæðinu. Þannig getum við notað íslenskt vinnuafl, íslenskt hugvit og þá arkitekta og verkfræðinga sem kæmu að hönnun mannvirkja, framkvæmd og eftirliti þar. Með því getum við byggt upp orkufrekan iðnað í landinu til frekari gjaldeyrissköpunar fyrir þetta samfélag. Það held ég að sé afskaplega mikilvægt eins og staðan er núna, frú forseti.