136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur.

365. mál
[15:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Með þessu frumvarpi er reynt að bregðast tímabundið við brýnni þörf á gjaldaaðlögun fyrirtækja vegna þess gengisfalls, samdráttar og verðbólgu sem ríkir í íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Með frumvarpinu er lagt til að á árinu 2009 geti fyrirtæki á hefðbundnum gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalda valið um tvennt, annars vegar að greiða á hefðbundnum gjalddaga eða að velja greiðsludreifingu. Ef greiðsludreifing er valin er greiðslunni dreift eins og nánar er mælt fyrir um í frumvarpi þessu til samræmis við þá gjalddaga sem í gildi eru. Lagt er til að almennir meðalvextir verði greiddir af þeim hluta greiðslunnar sem er frestað í stað dráttarvaxta.

Þess má geta að greiðsludreifing af sams konar meiði var lögfest á síðasta haustþingi varðandi gjalddaga aðflutningsgjalda 17. nóvember 2008, sbr. lög nr. 130/2008, um breytingu á tollalögum og lög nr. 157/2008, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er gengið lengra að því leyti að lagt er til að greiðsluaðlögunin nái til allra reglubundinna uppgjörstímabila á árinu 2009 að því er bæði varðar aðflutningsgjöld og vörugjöld.

Í I. kafla frumvarpsins er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við tollalög, nr. 88/2005, þess efnis að aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, þ.e. aðilar sem eru í virðisaukaskattskyldri starfsemi, verði heimilt að óska eftir því að fyrirkomulag gjalddaga aðflutningsgjalda vegna uppgjörstímabila á árinu 2009, á þessu ári, verði breytt á þann hátt að í stað þess að gjalddaginn sé 15. dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils verði veittur gjaldfrestur þannig að þriðjungur aðflutningsgjalda fyrir viðkomandi uppgjörstímabil komi til greiðslu á hefðbundnum gjalddaga, þ.e. 15. dag næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabilsins, þriðjungur komi til greiðslu mánuði síðar, eða 15. dag annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils, og lokaþriðjungur komi til greiðslu 5. dag þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Er greiðslum þá að fullu lokið fyrir fyrsta gjalddaga næsta uppgjörstímabils.

Í II. kafla frumvarpsins er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði bætti við lög nr. 97/1987, um vörugjald, sem kveður á um að gjaldskyldum aðilum verði heimilt að óska eftir því að fyrirkomulag gjalddaga vörugjalds vegna uppgjörstímabila á árinu 2009 verði breytt á þann hátt að í stað þess að gjalddaginn sé 28. dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils verði veittur gjaldfrestur á þann hátt að helmingur vörugjalds fyrir viðkomandi uppgjörstímabil komi til greiðslu á hefðbundnum gjalddaga, þ.e. 28. dag annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabilsins, og hinn helmingurinn komi til greiðslu mánuði síðar eða 28. dag þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

Í III. kafla frumvarpsins er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um virðisaukaskatt sem kveður á um að þrátt fyrir ákvæði VII. kafla og 7. mgr. 20. gr. þeirra laga verði á gjalddaga virðisaukaskatts vegna hinna reglubundnu uppgjörstímabila á árinu 2009, heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils, þó svo einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað. Er ákvæðið lagt til með vísan til I. kafla frumvarpsins um greiðslufrest vegna aðflutningsgjalda á árinu 2009. Með ákvæðinu er verið að tryggja að aðili sem stendur skil á virðisaukaskatti á gjalddaga geti að fullu notið innskattsréttar vegna viðkomandi uppgjörstímabils, þrátt fyrir framangreindar breytingar á fyrirkomulagi gjalddaga á aðflutningsgjöldum.

Til að koma í veg fyrir misnotkun er að lokum í frumvarpinu lagt til að kveðið verði á um það að hafna skuli beiðni aðila um greiðsludreifingu aðflutningsgjalda og vörugjalda hafi hann ekki staðið skil á aðflutningsgjöldum og vörugjöldum vegna fyrra uppgjörstímabils.

Ég vil láta þess getið, herra forseti, að ríkisskattstjóri hefur haft þessar breytingar til athugunar og skoðunar og mun fúslega veita hv. nefnd upplýsingar um þau atriði sem þar koma við sögu og hafa verið skoðuð sérstaklega eftir að frumvarpinu var dreift á Alþingi. Ég beini því til hv. þingnefndar að taka við þeim upplýsingum eða fá ríkisskattstjóra til ráðslags um nánari útfærslu á tilteknum atriðum frumvarpsins.

Ég vil geta þess að þó að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að farið verði mildari höndum um vaxtavöxtun gjalda sem mönnum er heimilað með þessu að dreifa og talað um meðalvexti eða samningsvexti en ekki dráttarvexti, þá er einnig til skoðunar í fjármálaráðuneytinu að skoða sérstaklega dráttarvaxtamál almennt. Dráttarvextir eru svimandi háir eins og gefur að skilja við þær aðstæður sem eru í vaxtamálum og þeirri athugun er ekki lokið. En eftir því sem efni kynnu að standa til mundi fjármálaráðuneytið koma þeim upplýsingum sömuleiðis á framfæri við hv. efnahags- og skattanefnd. Ég vil láta það álit mitt í ljós að það eigi að sjálfsögðu að skoða hvort einnig að því leyti er hægt að koma til móts við atvinnulífið og fyrirtæki í verulegum erfiðleikum og greiðsluþrengingum eins og þetta frumvarp er hugsað.

Segja má að þetta sé að nokkru leyti greiðsludreifing eða greiðsluaðlögun fyrir atvinnulífið með hliðstæðum hætti og menn hafa reynt að grípa til þó í víðtækari mæli sé fyrir heimilin í landinu.

Frumvarpið vegur að sjálfsögðu ekki mjög þungt í þessum efnum en það er þó engu að síður mat þeirra sem það hefur verið unnið með, m.a. Samtaka iðnaðarins og fleiri aðila, að þetta sé til verulegra bóta fyrir fyrirtækin og þau geti munað umtalsvert um að fá þá greiðsludreifingu eða gjaldaaðlögun sem hér er lögð til.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, leyfi ég mér að leggja til að frumvarpið gangi til 2. umr. og hv. efnahags- og skattanefndar.