136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[16:08]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil stuttlega koma inn í þessa umræðu um það mál sem hæstv. fjármálaráðherra hefur mælt fyrir, breyting á lögum um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda og fagna því sérstaklega að þetta mál er komið hér til umræðu, frumvarp sem hefur það að meginmarkmiði að styrkja skattframkvæmd og vinna gegn skattundanskotum.

Ég held að ekki sé ofsögum sagt að einn vandinn sem við Íslendingar höfum átt við að glíma á þessu sviði undanfarin ár sé að við höfum verið með allt of lina skattalöggjöf hér á landi í samanburði við það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Hver veit nema það sé ein af orsökunum fyrir því hvert við erum komin í okkar fjármálalífi, í fjármálageiranum, að við höfum búið við annars konar umgjörð en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Ég er alla vega þeirrar skoðunar að það sé engin ástæða fyrir okkur til þess að búa til einhverja sérstaka paradís, setja hér fjármálafyrirtæki í bómull þegar kemur að skattalegum atriðum. Reyndar held ég að það megi halda því fram að þeir sem hafa farið hvað verst — nú heyrum við fregnir af því að það sé að ganga mjög illa í Bretlandi í fjármálalífinu og viðskiptalífinu þar. Ég tel að ein ástæðan fyrir því meðal annars sé að Bretar völdu þá leið á sínum tíma að taka lagaumhverfið eins og það var í Bandaríkjunum, heimfæra það til sín og skrúfa það svo niður um svona 10–15% eða þar um bil, allar kröfur til þess að freista þess að ná til sín starfsemi sem ella hefði ekki komið þangað. Það slaka lagaumhverfi sem þannig var búið á áreiðanlega sinn þátt í því að það gengur illa núna þegar við getum sagt að ágjöf verður í þessu efni.

Ég ætla ekkert að fara sérstaklega inn í efnisatriði þessa frumvarps í sjálfu sér. Það mun áreiðanlega fá ítarlega umfjöllun á vettvangi efnahags- og skattanefndar þar sem ég á sæti og þá gefst tækifæri til þess að fá gesti á fundi nefndarinnar og spyrja nánar út í einstök atriði frumvarpsins. Ég vil sem sagt ítreka að ég tel mikilvægt að þetta frumvarp sé komið inn í þingið til efnislegrar meðferðar og við getum tekist á við efni þess á vettvangi nefndarinnar. Ég held líka að það sé þýðingarmikið í þessu samhengi að við komum á réttlátri skattaskipan í landinu.

Eitt af því sem við höfum heyrt mikið talað um í efnahagshruninu er að við búum ekki við réttlátt og gagnsætt fyrirkomulag hér á landi í mörgu tilliti og skattamálin eru sannarlega einn þátturinn í því efni. Ég tel mikilvægt við að byggja upp samfélag okkar og endurheimta traust meðal annars á fjármálastofnunum, sem er mjög þýðingarmikið — þ.e. að byggja upp traust á fjármálastofnunum sem er nánast hrunið — einn liður í því er að sjálfsögðu að skattumhverfi þeirra sé þannig að um það sé sátt í samfélaginu. Ég held að þar hafi menn gengið allt of langt á undanförnum árum og búið til gjá sem nú þarf að brúa. Ég tel að það frumvarp sem hér liggur fyrir sé mikilvægur liður í þeirri brúarsmíð og ég fagna framlagningu þess og hlakka til að takast á við efni þess og umræður um það á vettvangi efnahags- og skattanefndar.