139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

efnahagsmál.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki talið mig þurfa að leiðbeina efnahagsráðherra með einum eða öðrum hætti. Hann rækir skyldur sínar vel sem efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur sannarlega sínar skoðanir á gengismálum og krónunni. Hann telur að það sé betra fyrir íslenskt hagkerfi að ganga inn í Evrópusambandið og taka upp evruna. En (Gripið fram í.) mér finnst líka að stjórnarandstaðan verði að gera sér grein fyrir því að hún hefur líka ákveðnar skyldur hér ekki síður en stjórnarliðar. Er ekki kominn tími til að stjórnarandstaðan fari að gera grein fyrir því hvað hún vill gera (Gripið fram í.) í efnahags- og atvinnumálum? Það væri mjög gott að vita hvað hún vill gera. Hvað vill hv. þingmaður gera? (Gripið fram í.) Vill hann taka upp nýjan gjaldmiðil eða vill hann halda í krónuna? Vill hann ganga í Evrópusambandið eða vill hann það ekki? Allt skiptir þetta máli fyrir uppbyggingu atvinnulífsins. Hvað vill hann gera í Icesave-málinu? Það skiptir líka máli fyrir atvinnulífið og þá óvissu sem við mundum búa við ef Icesave yrði ekki samþykkt. Hvað vill hann gera í þessum málum? Hvað vill hann gera í atvinnuuppbyggingunni? Væri ekki gott að við fengjum það fram (Gripið fram í.) frá hv. þingmanni.

Ég er iðulega í ræðustól að gera grein fyrir því hvað ríkisvaldið ætlar að gera í þessum efnum, í atvinnumálum, og var hér síðast rétt áðan. En mér finnst að stjórnarandstaðan hafi líka skyldur í þessum efnum. Hvað vill hv. þingmaður gera í gjaldeyrishöftunum? Vill hann aflétta þeim bara einn, tveir og þrír, eins og skot? Og ef það yrði gert hvaða (Gripið fram í.) áhrif mundi það hafa á gengið, á krónuna, á verðbólguna? (Gripið fram í.) Mér finnst að hv. þingmenn þurfi líka að gera grein fyrir sínum áætlunum, vita hvort eitthvað felist þá í þeim sem við getum tekið mark á og tekið upp sem okkar tillögur.

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni hljóð.)

Það heyrist ekkert annað frá stjórnarandstöðunni en kvart og kvein og barlómur í þessum ræðustól (Gripið fram í: Það er rangt hjá þér.) og það er kominn tími til að þeir snúi við blaðinu og segi hvað þeir vilji gera í þessum málum. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsal og biður menn um að gefa ræðumanni hljóð til að ljúka máli sínu.)