143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

flýtimeðferð í skuldamálum.

[10:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þá ætla ég að lesa upp úr stjórnarsáttmálanum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Unnið verður að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál, sem varða skuldir einstaklinga og fyrirtækja, fái eins hraða meðferð og mögulegt er. Óvissu um stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum“ — m.a. væntanlega gagnvart Íbúðalánasjóði — „verður að linna.“

Hérna segir: Fái eins hraða meðferð og mögulegt er. Það er mögulegt að ráðherra grípi þarna inn í þótt ráðherra finnist það óþægilegt vegna þess að hún er í Hagsmunasamtökum heimilanna og hefur greitt í sjóð þar. Það er mögulegt að uppfylla þetta með því að ráðherra grípi inn í og taki stefnumarkandi ákvörðun hjá Íbúðalánasjóði um að þeir vísi þessu máli ekki frá. Þeir vísi málinu ekki frá og við fáum niðurstöðu í það, fáum niðurstöðu um réttmæti verðtryggingar á húsnæðislánum áður en skjólið sem var skapað fram í september, um að fólki verði ekki vísað af heimilum sínum, rennur út.