143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég hef verið mikill stuðningsmaður þessa verkfæris, rammaáætlunar. Ég get sagt það hér að sú rammaáætlun sem var samþykkt vorið 2013 var ekki mitt draumaplagg, það var ekki mín persónulega rammaáætlun. Ég sagði við þá meðferð: Ég hefði helst viljað sleppa því að virkja nokkurn skapaðan hlut á næstu árum, enda sé ég engan tilgang með því að byggja hér fleiri álverksmiðjur, svo að dæmi sé tekið. Ég held að það sé ekki framtíðin fyrir Ísland. Ég held að það sé ekki framtíð sem við viljum skapa fyrir okkar unga fólk.

Þetta eru alveg gríðarleg auðævi sem við eigum. Það er ekki okkar að taka endilega allar ákvarðanir þegar við horfum á hve búið er að virkja ótrúlega mikið magn af virkjanlegri orku hér á landi bara á síðustu áratugum, síðustu 30 árum eða svo. Er eitthvað sjálfgefið að við eigum að halda áfram? En ég sagði: Rammaáætlun er hins vegar ferli sem ég ætla að treysta á í trausti þess að aðrir geri það líka þannig að við náum einhverri sátt. Ég leit svo á að sú niðurstaða sem þá náðist hafi verið nokkuð góð tillaga að sátt. Ég held hins vegar að það að vera að byrja að hreyfa við henni strax nokkrum mánuðum eftir að hún liggur fyrir, það er auðvitað ekki til þess að efla traust á ferlinu. Þannig að ég held að við séum á mjög viðkvæmum stað núna.

Ég hefði litið svo á að hefði þetta mál hins vegar farið til hv. umhverfis- og samgöngunefndar værum við bundin af þessu ferli og það væri að sjálfsögðu okkar hlutverk að rýna niðurstöðu verkefnisstjórnar, rýna þær athugasemdir sem síðan koma fram frá þeim sem skila sérálitum, þeim sem gera athugasemdir, en að við værum bundin af þessu ferli, hvernig við vinnum þetta, þannig að við getum haldið áfram að byggja upp eitthvert traust í kringum ferlið. Það er mjög mikilvægt því að þetta var ekki heldur draumaáætlun margra annarra sem vildu virkja miklu meira, þetta var ekki draumaáætlun þeirra heldur. En við féllumst á að taka þátt í þessu út frá ákveðnu trausti, að hér væri komið tæki sem væri líklegt til að skapa einhverja sátt til þess einmitt að spara okkur umræður um einstaka virkjunarkosti alltaf í sölum Alþingis.