143. löggjafarþing — 95. fundur,  11. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[00:24]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, kannski á klúðrið að vekja manni bjartsýni, ég veit það ekki. Það er óvenjulegur pollýönnuleikur finnst mér að velta því fyrir sér.

Ég sagði það hins vegar hér fyrr í kvöld og kallaði eftir því í ræðu minni að hæstv. ráðherra kæmi hreinlega upp í ræðustól og leiðrétti það sem ég taldi þá að væri einsýnt að væru mistök gerð af fullkomnu sakleysi og í fljótfærni. Því taldi ég, eins og ég tel alla jafna, að allir ættu rétt á leiðréttingu orða sinna ef þeim hefði orðið á. Ætli það séu ekki að verða bráðum fjórir klukkutímar síðan ég lét þau orð falla? Hæstv. ráðherra hefur verið í þinghúsinu, eftir því sem mér er best kunnugt um, megnið af þeim tíma og haft ótal tækifæri til að koma í ræðustól Alþingis og leiðrétta mistök sín, en ekkert slíkt hefur gerst. Ég hlýt því að túlka það þannig að hér sé á ferðinni býsna einbeittur vilji hæstv. ráðherra og viljinn standi til þess að koma þessu máli með hvaða ráðum sem duga til rangrar nefndar (Gripið fram í: Þetta er nú einum of.) (Forseti hringir.) til að tryggja (Forseti hringir.) að það fái þá málsmeðferð sem ráðherra vill.