144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

þjónustusamningur við Samtökin ´78.

711. mál
[16:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna. Mig langar að segja í lokin að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með viðbrögð hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni þar sem hún segir með nokkuð afgerandi hætti að hún telji ekki að gera eigi þjónustusamning við Samtökin ´78. Ef við höldum okkur bara við þá umræðu beinlínis telur hún fullnægjandi að samtök af því mikilvægi, eins og hér er verið að tala um, ekki bara félagasamtök heldur samtök sem hafa gríðarlega miklu samfélagslegu hlutverki að gegna, búi við þá stöðu að sækja um styrk til eins árs í senn, búi við þá stöðu að geta ekki skipulagt sig og sitt starf inn í framtíðina með neinum þeim hætti sem boðlegur er fyrir gott samfélag.

Ég bið hæstv. ráðherra að endurskoða þessa afstöðu sína. Innan vébanda Samtakanna ´78 er gríðarlega mikilvæg þekking sem samtökin hafa þróað og miðlað inn í samfélagið allt, ekki bara til skjólstæðinga sinna og félagsmanna heldur ekki síður út í samfélagið í heild. Ég tel að það gangi ekki annað en að hæstv. ráðherra endurskoði þessa afstöðu vegna þess að hér erum við að ræða um samtök sem þurfa ekki bara verkefnastyrki til einstakra verkefna, heldur stöðugan, varanlegan og öruggan rekstrar- og fjárhagsgrundvöll inn í lengri framtíð. Annað er einfaldlega ekki boðlegt fyrir samfélag sem vill kalla sig opið og nútímalegt.