149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

loftslagsbreytingar og orkuskipti.

[15:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er með hundleiðinlega spurningu. Loftslagsbreytingar eru stærsta ógnin sem steðjar að mannkyni í dag. Þær eru fleiri, t.d. hættan á kjarnorkustyrjöld sem er enn þá til staðar meðan ég man. Ef vel er að gáð má reyndar finna ýmsar ógnir sem mannkynið er misjafnlega vel í stakk búið til að bregðast við. En engin ógn er jafn yfirþyrmandi eða jafn stór og jafn viss sem loftslagsbreytingar. Sjáanlegar og hraðar loftslagsbreytingar eru reyndar þegar hafnar og það liggur fyrir að þær munu rústa mannlegu samfélagi eins og við þekkjum það ef ekki verður gripið vægast sagt hraustlega inn í. Reyndar þarf fordæmalausar breytingar á mannlegu samfélagi á næstu örfáu áratugum, bara til að draga úr mestu hörmungunum. Náist það ekki er erfitt að ýkja hverjar afleiðingarnar verða. Umhverfissinnar sem hlusta kinka eflaust enn þá bara kolli.

Þá kem ég mér að leiðindunum. Eitt af stóru vandamálunum í framtíðinni verður það að við verðum einfaldlega að skipta yfir í orkuauðlindir sem ekki krefjast útblásturs gróðurhúsalofttegunda, bæði Ísland og aðrar þjóðir. Með öðrum orðum mun þurfa að stórauka rafmagnsframleiðslu og ég minni á að við erum að tala um fordæmalausar breytingar á mannlegu samfélagi. Umhverfissinnar hafa gjarnan mótmælt fallvatnsvirkjunum í gegnum tíðina á Íslandi til að vernda ósnerta náttúru. Sjálfur tel ég mig til umhverfissinna og hef frekar hallast gegn virkjunaráformum en með þeim, þótt ég hafi reyndar bæði séð virkjunaráform sem ég skil ekki hvers vegna nokkur er á móti sem og áform sem ég skil ekki hvers vegna nokkur er hlynntur. En í ljósi loftslagsbreytinga finnst mér við þurfa að horfast í augu við a.m.k. tvennt:

Í fyrsta lagi, ef litið er til 100 eða 200 ára, verðum við að spyrja hvað sé átt við með ósnertri náttúru. Jöklarnir eru að bráðna og veðurfar er að breytast með tilheyrandi áhrifum á umhverfið allt. Hvað verður ósnert náttúra eftir 100 ár? Ég hef ekki svar við þessari spurningu.

Í öðru lagi: Eina leiðin til að fara í þessar fordæmalausu breytingar á mannlegu samfélagi er með orkuskiptum á slíkum hraða og skala sem hefur hingað til ekki þótt raunhæfur og er það kannski ekki. Því langar mig að spyrja þessarar leiðindaspurningar: Getum við umhverfisverndarsinnar tekist á við þetta fordæmalausa verkefni án þess að fórna öðrum? Sér hæstv. umhverfisráðherra fyrir sér að flóknara verði héðan af að velja og hafna þegar kemur að nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda á Íslandi í baráttunni við loftslagsbreytingar?