149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

loftslagsbreytingar og orkuskipti.

[15:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og gott ef honum tókst ekki að búa til smávonarglætu í hjarta þess sem hér stendur, en sá er afskaplega þakklátur í hvert sinn sem það gerist. Þær minnka mjög hratt við skoðun þessa máls, því miður.

Mig langar ekki til að stela fyrirspurn sem er á dagskrá seinna í dag en ég ætla samt að hætta mér aðeins inn á það efni í ljósi svars hæstv. ráðherra, ég hlakka til að heyra umræðuna á eftir. Það snýst um frekari nýtingu á orkuauðlindum, kannski sér í lagi fallvatnsvirkjunum þar sem þær eru umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir sem hafa verið umdeildar hingað til, hvort slíkt standi til og hvert viðhorf hæstv. ráðherra sé til þess, hvort hann telji t.d. að setja eigi tiltekin skilyrði fyrir því til að ná einhverjum ákveðnum markmiðum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum eða í það minnsta að koma út á núlli. Með öðrum orðum að það sé alltaf tekið með í reikninginn þegar við förum út í einhver virkjunaráform hvort þau þjóni því markmiði að berjast gegn loftslagsbreytingum.