149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

refsiaðgerðir vegna bílaleigunnar Procar.

[15:43]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Mig langar að bæta við að þegar upp koma mál eins og þetta er tilhneigingin sú að svarið sé að auka eftirlit á alla. Í þessu tilviki er um að ræða 120 bílaleigur. Það kallar þá auðvitað það að einhver opinber starfsmaður fari yfir það allt saman, í stað þess, eins og ég segi, að huga að því hvort refsiábyrgð lögaðila sé nægilega skýr og nægilega rík. Það þarf auðvitað að vera þannig að viðurlög bíti þá sem meðvitað brjóta lög og brjóta gegn góðum viðskiptavenjum og viðskiptaháttum. En við þurfum að vera viss um að þær heimildir sem við viljum beita séu til staðar í löggjöfinni hverju sinni.

Hvaða áhrif hefur eftirlit almennt í för með sér fyrir okkar samfélag? Það er sú vinna sem við erum að fara af stað með ásamt OECD. Sú vinna hefur skilað þeim löndum sem hafa farið með þeim í slíkt verkefni í því að hagvöxtur hefur aukist. Til að mynda í Ástralíu, ef ég man rétt, voru 1.800 lög og reglugerðir felld brott á fimm ára tímabili og hagvöxtur hefur verið ofar OECD alveg síðan þá.

Þannig að það sem við þurfum að gera er að greina hvar það er of íþyngjandi og of umfangsmikið og hvort við förum (Forseti hringir.) alltaf rétta leið. Þarf alltaf leyfi eða er stundum nóg að skrá? o.s.frv. Þetta skiptir allt atvinnulíf mjög miklu máli.