149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

ferðakostnaður sjúkratryggðra og aðgengi fólks utan höfuðborgarsvæðisins að sérfræðiþjónustu.

641. mál
[15:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðgengi fólks utan höfuðborgarsvæðisins að sérfræðiþjónustu.

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er misskipt á Íslandi. Það er staðan, þótt við getum samt haldið því fram að aðgengi sé nokkuð gott þegar á heildina er litið. Þjónusta sérgreinalækna er aðgengilegust hér á höfuðborgarsvæðinu, en það dregur mælanlega úr aðgengi eftir því sem farið er lengra út í hinar dreifðu byggðir.

Í heilbrigðisstefnunni sem nú er til umfjöllunar í hv. velferðarnefnd er fjallað um þær áskoranir sem felast í því að tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og þar er m.a. nefnd fjarheilbrigðisþjónusta, sem er mikilvæg leið til þess að takast á við þessar áskoranir.

Mig langar samt til að nefna í þessu svari við hv. þingmann að við höfum allnokkrar leiðir til þess að bæta þjónustu við hinar dreifðu byggðir að því er varðar aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu. Í fyrsta lagi höfum við verið að vinna með það að styrkja heilsugæsluna. Hún hefur náttúrlega verið styrkt um allt land, m.a. með því að auka þverfaglega mönnun heilsugæslunnar og þar með möguleikana á að fólk geti fengið úrlausn sinna mála, þ.e. við fleiri sjúkdómum en áður var. Í öðru lagi eru verkefni sem eru sums staðar komin í gang og eru þess eðlis að annaðhvort Sjúkrahúsið á Akureyri eða Landspítali styður heilbrigðisstofnanir úti um land í því að bjóða upp á tiltekna sérfræðiþjónustu. En síðast en ekki síst er unnt að koma því fyrir í samningum við sérgreinalækna og fyrirtæki þeirra sem vinna á einkamarkaði í gegnum samninga við Sjúkratryggingar að þar sé innifalinn ákveðinn áskilnaður um það að viðkomandi veiti þjónustuna víðar en bara á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er partur af þeim samningsmarkmiðum sem hafa komið frá heilbrigðisráðuneytinu í yfirstandandi samningum við sérgreinalækna. Þannig að það eru nokkrar leiðir til að styrkja þetta.

Einn angi af því að greiða fyrir aðgengi fólks utan höfuðborgarsvæðisins er líka að gera betur í greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í ferðakostnaði. Við erum að vinna að breytingum á reglum um ferðakostnað í ráðuneytinu núna í samvinnu við Sjúkratryggingar Íslands. Við erum líka að reyna að skýra betur — og það kemur fram í heilbrigðisstefnu — þessa fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu, þ.e. að við tryggjum að það sé rétt þjónusta veitt á réttum stað, að fólk sé ekki að sækja í þriðja stigs þjónustu eftir fyrsta stigs úrræðum, ef svo má að orði komast. Það gengur vel að reyna að koma þessu í kring.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það eru hagsmunir sjúklinganna sem verða að vera í forgrunni þarna en ekki hagsmunir einstakra heilbrigðisstofnana eða umdæma eða hvað það er.

Hv. þingmaður spyr líka um það hvort það sé ekki heimild til að veita undanþágur frá því að sjúkratryggingar taki þátt í ferðakostnaði. Svo er ekki. Það eru engar heimildir til að veita slíkar undanþágur, þ.e. það eru tvær ferðir á 12 mánaða tímabili, og undanþágur hafa ekki verið veittar.

En það er rétt að taka það fram þegar um er að ræða ítrekaðar ferðir sjúkratryggðra, t.d. vegna nýrnabilunar eða annarra slíkra alvarlegra sjúkdóma, taka sjúkratryggingar þátt í ferðakostnaði viðkomandi, samanber sérstaka reglugerð þar um. Þannig að það er hægt að koma til móts við ferðakostnað þar.

Ég vil líka nefna í þessu svari sjúkrahótel. Þegar það verður komið til fullrar notkunar hjálpar það til að einhverju leyti. Auk þess hef ég gert að áherslumáli mínu á þessu ári og því næsta að við þurfum að gera miklu betur í því að ná utan um umfang og dreifingu sjúkraflutninga á landinu, þ.e. þess sem stundum er kallað utanspítalaþjónusta. Þá er ég ekki bara að tala um þjónustu á landi eða sjúkraflutninga með hefðbundnu sniði á landi heldur líka í lofti. Því að öflug fjarheilbrigðisþjónusta og öflugir sjúkraflutningar eru líka lífæð fyrir fólkið á landsbyggðinni til að geta notið fjölþættrar heilbrigðisþjónustu. Markmiðið í heilbrigðisstefnu sem er núna til meðferðar í þinginu hlýtur að vera sem jafnast aðgengi að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag annars vegar og óháð búsetu hins vegar.