150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

opinber stuðningur til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

711. mál
[11:52]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Með frumvarpinu verður til nýr sjóður í eigu íslenska ríkisins sem ber heitið Kría. Tilgangur Kríu er að efla íslenskt atvinnulíf með því að stórauka fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Kría mun gera það með því að taka þátt í stofnun svokallaðrar vísisjóða sem síðan fjárfesta beint í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Með þessu fyrirkomulagi hvetur hið opinbera til aukinnar fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum og nýtir jafnframt þá miklu þekkingu í uppbyggingu fyrirtækja sem rekstraraðilar vísisjóða hafa sem taka mikinn þátt í þróun, mótun og vexti þeirra fyrirtækja sem þeir fjárfesta í.

Frumkvöðla, sem stofna fyrirtæki á grundvelli hugmyndar sem hefur möguleika á því að vaxa hratt, vantar stundum sérfræðiþekkingu á fyrirtækjarekstri sem kann að standa vexti þeirra fyrir þrifum. Hugmyndirnar eru einnig oft stutt á veg komnar og því ekki álitlegir fjárfestingarkostir fyrir almennari fjárfesta. Í heimi nýskapandi fyrirtækja er það raunhæft vandamál að á fyrstu stigum vaxtar er oft verulega erfitt fyrir fyrirtækin að afla sér fjármagns til frekari þróunar og rekstrar. Viðurkennt er að hið opinbera hafi á þessu stigi mikilvægu hlutverki að gegna við að styðja við þróun nýskapandi fyrirtækja og aðstoða þau við að klekjast út. Það skiptir hins vegar miklu máli hvernig það er gert og með þeirri leið sem lögð er til að farin verði með stofnun Kríu er leitað til einkafjármagnsins og þeirrar sérþekkingar sem þar býr að baki við að meta fjárfestingartækifæri og velja þannig réttu fyrirtækin og réttu frumkvöðlana til að fjárfesta í. Kría mun þannig ekki fjárfesta beint í fyrirtækjum heldur fjárfesta í sérhæfðum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu og þeir sjóðir fjárfesta svo í fyrirtækjum. Fulltrúar ríkisins munu þannig ekki velja þau fyrirtæki sem fjárfest er í heldur mun hið opinbera fjármagn sem veitt verður til Kríu elta einkafjármagnið. Mikilvægt er að árétta að tilgangur Kríu er þannig ekki að hámarka arðsemi opinbers fjár með fjárfestingum heldur að stuðla að betra fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og styðja þannig við framþróun íslensks atvinnulífs.

Vísifjármagn, sem á ensku kallast „venture capital“, og vísisjóðir eru sérhæfðir og sérhannaðir fjárfestingarsjóðir sem fjárfesta helst í tækni- og nýsköpunarfyrirtækjum þar sem er mikil áhætta og þar af leiðandi lítið um fjármögnunarkosti. Vísisjóðir eru ein tegund framtakssjóða sem eru sérstaklega settir upp til að taka þátt í nýsköpunarverkefnum. Auk fjármagns leggja vísisjóðir af mörkum reynslu, þekkingu og tengingar til annarra fjárfesta.

Á síðustu árum hefur umhverfi nýsköpunar á Íslandi tekið stakkaskiptum og mikilvægt að líta til næstu 20 ára við stefnumörkun. Ríkið hefur lengi spilað stórt hlutverk við fjármögnun nýsköpunar, t.d. í gegnum Tækniþróunarsjóð, endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar og í gegnum Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, en til að umhverfi nýsköpunar verði sjálfbært, alþjóðlega samkeppnishæft og geti staðið undir þeim vexti sem nauðsynlegur er fyrir Ísland, verður einkafjármagn að taka ríkulegan þátt í vegferðinni.

Þó nokkuð hefur verið rannsakað um áhrif vísisjóða á hagvöxt, nýsköpun og sköpun starfa. Rannsóknir hafa sýnt að aukning í vísifjármagni hafi mikil áhrif á nýsköpun, skráningu einkaleyfa, hagvöxt og sköpun starfa. Við lítum reglulega til nágrannalanda okkar þegar kemur að innleiðingu á aðgerðum hins opinbera. Sem dæmi má líta til þess þegar Vísinda- og tækniráð var stofnað, það er að finnskri fyrirmynd. Ef við lítum til þeirra opinberu aðila sem hafa hlutverk við fjármögnun nýsköpunardrifinna fyrirtækja er nærtækt að líta til Tesi í Finnlandi eða Vækstfonden í Danmörku en báðir eru opinberir fjárfestingarsjóðir. Tesi fjárfestir aðallega í sjóðum og hefur gert lengi til að styðja við þróun vísisjóða og framtakssjóða í Finnlandi ásamt því að kynna finnskt atvinnulíf á alþjóðavettvangi og styðja við hagvöxt í Finnlandi. Vækstfonden er sjálfstæður fjárfestingarsjóður í eigu danska ríkisins og fjárfestir m.a. í gegnum VF Venture, vísisjóð í eigu Vækstfonden, beint í fyrirtækjum. Líkt og Tesi fjárfestir Vækstfonden einvörðungu í samfloti við aðra fjárfesta sem uppfylla skilyrði líkt og að hafa þekkingu eða tengslanet sem nýtast fyrirtækjunum. Eðlilegt er að líta til þessara dæma sem nágrannalönd okkar hafa sett upp og rekið um nokkurn tíma þegar við metum íslenskar útfærslur.

Líkt og fram kemur í greinargerð frumvarpsins er einnig hægt að leita lengra eftir árangursríkri reynslu af uppbyggingu fjárfestingarumhverfis fyrir vísisjóði. Yozma-áætlunin í Ísrael er gott dæmi en hún hefur leitt það af sér að Ísrael er í dag eitt af þeim löndum þar sem til verða flest sprotafyrirtæki miðað við höfðatölu og nýsköpun, rannsóknir og þróun eru mikilvægur þáttur hagkerfisins.

Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir myndar lagaramma utan um stofnun og rekstur Kríu. Með yfirstjórn Kríu mun fara fimm manna stjórn sem mun taka ákvarðanir um fjárfestingu í sérhæfðum sjóðum. Stjórnin mun vera sjálfstæð í sínum störfum og tekur ekki við fyrirmælum frá öðrum. Auglýst verður eftir umsóknum um þátttöku Kríu í öðrum sérhæfðum sjóðum sem verið er að stofna. Uppfylli rekstraraðilar sjóðanna skilyrði um aðkomu Kríu mun Kría geta fjárfest í þeim og þannig aukið það fjármagn sem nýtt er til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum. Kría mun ekki hafa frumkvæði að sínum fjárfestingum heldur fjárfesta í þeim sjóðum sem óska eftir því, að því gefnu að þeir uppfylli þau skilyrði sem sett verða í reglugerð. Það fer eftir fjármagni og fjölda umsókna hverju sinni hversu stór fjárfesting Kríu getur verið í hverjum sjóði, en þó er í 3. gr. frumvarpsins lagt til að fjárfesting Kríu geti að hámarki numið 30% af heildarstærð viðkomandi sjóðs eða 2 milljörðum kr. Með því er tryggt að opinbert fé verður ávallt í minni hluta og til að fá aðkomu Kríu að stofnun annarra sjóða þurfa fjárfestar að vera tilbúnir að fjárfesta miklu af sínu eigin fé, enda er það tilgangur frumvarpsins að auka fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Eins og áður sagði munu sjóðir sem óska aðkomu Kríu þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Skilyrðin eru til þess fallin að efla umhverfi vísifjárfestinga á Íslandi. Líkt og ég nefndi áður sýnir reynsla annarra þjóða að það er eftirsóknarvert fyrir nýsköpunarstarf og öflugan vöxt sprotafyrirtækja að til staðar sé öflugt umhverfi vísifjárfestinga. Til að svo megi verða þarf að kveða á um ákveðin skilyrði fyrir þátttöku Kríu, enda er til mikil flóra fjárfestingarsjóða sem hafa ekki sama tilgang og markmið og vísisjóðir og myndu þannig ekki stuðla að fjárfestingum í fyrirtækjum þar sem til staðar er markaðsbrestur fjármögnunar á fyrstu stigum, líkt og á við um mörg sprotafyrirtæki. Þau skilyrði sem verða sett taka mið af árangri annarra þjóða við að byggja upp umhverfi vísifjárfestinga og aðlöguð að vissu leyti að íslenskum veruleika. Hvorki er nauðsynlegt né ákjósanlegt að kveðið verði á um skilyrði í lögunum sjálfum enda er slíkt almennt ekki gert erlendis og meta þarf virkni þeirra á meðan á rekstri Kríu stendur með tilliti til þess hvernig þau vinna að því að markmiðum frumvarpsins verði náð. Þó er í greinargerð frumvarpsins töluverð umfjöllun um helstu skilyrði sem sett verða og drög að reglugerð með skilyrðunum munu að sjálfsögðu fara í opið samráð áður en hún verður lögfest.

Mikilvægt er að hafa í huga að það er ekki markmið með stofnun Kríu að beina fjárfestingum í ákveðnar atvinnugreinar eftir ákvörðun hins opinbera. Markmiðið er að hér á landi verði til heilbrigt umhverfi fyrir vísisjóði sem aftur mun gagnast íslenskum sprotafyrirtækjum í auknu aðgengi að áhættufjármagni og þekkingu á rekstri og vexti sprotafyrirtækja. Því verður aðeins náð með því að hið opinbera sé hlutlaust um það í hvaða atvinnugreinum verður fjárfest og eftirláti það mat fagfjárfestum á markaði.

Hugmyndin að stofnun Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóði var kynnt í nóvember á síðasta ári. Stofnun Kríu er ein þeirra aðgerða sem ráðist verður í á grundvelli þeirrar framtíðarsýnar sem kynnt var með nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem felur í sér að hér á landi verði til staðar þroskað umhverfi fyrir fjármögnun nýsköpunar sem aftur leiðir til aukinnar samkeppnishæfni atvinnulífsins og fleiri tækifæra fyrir vísindafólk og frumkvöðla. Grundvöllur gróskumikils nýsköpunarstarfs er menntun, vísindi og rannsóknir, tækniþróun, öflugt hugvit og síðast en ekki síst fjármagn til að láta hugmyndirnar verða að veruleika. Í þeim löndum þar sem stjórnvöld hafa farið svipaðar leiðir við að efla fjárfestingu í nýsköpunarfyrirtækjum og lagt er til að verði farin með þessu frumvarpi hefur það leitt af sér fjölda fyrirtækja sem komist hafa af fyrstu stigum vaxtar og skapað verðmæti og hátæknistörf fyrir samfélagið. Markmiðið sem stefnt er að með stofnun Kríu og er grundvöllur nýsköpunarstefnu fyrir Ísland er að Ísland verði ákjósanlegt land fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á grundvelli traustra innviða og öflugra fjárfestinga.

Kría verður kynnt á alþjóðavettvangi til að koma á tengingum við erlenda fjárfesta sem gætu verið áhugasamir um fjárfestingar í íslenskum sprotafyrirtækjum. Nýlega höfum við séð aukinn áhuga erlendra fjárfesta á íslenskum sprotafyrirtækjum og fjárfest hefur verið í íslenskum fyrirtækjum fyrir töluverðar fjárhæðir. Þær fjárfestingar sýna hversu mikilvægt það er að hér á landi verði alþjóðlega tengt og samkeppnishæft fjárfestingarumhverfi fyrir nýsköpunarfjárfestingar sem Kría mun styðja við að þróist áfram frá því sem nú er.

Íslenskt atvinnulíf stendur nú frammi fyrir gríðarlegum áskorunum sem eru af áður óþekktri stærðargráðu. Öflug viðspyrna er nauðsynleg, líkt og ríkisstjórnin hefur lagt upp með, og áform eru um frekari aðgerðir sem unnið er að. Á tímum sem þessum eru nýjar hugmyndir og nýjar lausnir nauðsynlegar. Áhersla stjórnvalda á nýsköpun og góð starfsskilyrði fyrir sprotafyrirtæki sem og öll önnur fyrirtæki í landinu mun að mínu mati leiða til þess að við komum sterkari en áður upp úr þeim öldudal sem við nú erum í.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið gangi til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.