150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

opinber stuðningur til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

711. mál
[12:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um frumvarp um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort þessum Kríusjóði verði tryggt nægt fjármagn vegna þess að í umræðu fyrir ekki svo löngu síðan var talað um aðkomu lífeyrissjóða að nýsköpunar- og þróunarsjóðum og aukið fé í þá, allt að 50 milljarðar kr. sem þeir gætu lagt í þetta. Auðvitað, eins og við gerum okkur grein fyrir, er þetta áhættufjárfesting. En spurningin er hvort ríkið ætlaði að leggja annað eins á móti. Í því samhengi má nefna að hámark eignarhlutar Kríu er 30% eða 2 milljarðar. Það væri þá 6 milljarða kr. sjóður sem tæki 2 milljarða til sín. Þetta er mjög gott mál og bara hið besta mál vegna þess að ekki veitir okkur af að fara í nýsköpun og sérstaklega í því samhengi að við þurfum að stuðla að nýsköpun þannig að við séum sjálfbær í matvælaframleiðslu og fleiri hlutum. Eitt af því sem gefur t.d. gífurleg tækifæri í dag er nýsköpun í sambandi við kvikmyndir og þann geira. Þar hefur allt frosið og er jafnvel möguleiki á því að við verðum ein fyrsta þjóðin til að koma þeirri starfsemi á fullt skrið. Ég spyr: Hversu mikið fjármagn verður í þessum sjóði og hversu fljótt fer þetta af stað?