150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

opinber stuðningur til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

711. mál
[12:12]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er svolítið áhugavert við þetta svar hjá hæstv. ráðherra að í frumvarpinu er talað almennt um að setja umsýsluna í hendur þriðja aðila og það virðist vera búið að ákveða hver sá þriðji aðili er. Ég veit ekki hvernig það lítur út. En ég velti fyrir mér: Af hverju var ekki farin sú leið sem hefur verið farin í ansi mörgum ríkjum í kringum okkur — í staðinn fyrir að setja upp sjóð með litla yfirbyggingu, eða það sem við myndum almennt kalla litla innviði, litla getu til að stýra sér á eigin forsendum — að búa til þróunarbanka? Það er módel sem hefur virkað mjög vel í löndunum í kringum okkur og í helstu iðnríkjum heims. Mér finnst eins og að þessi sjóður verði alltaf með takmarkaða getu vegna áherslu á að hafa svokallaða litla yfirbyggingu, þ.e. litla innviði og sjálfstæða getu.