150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[12:48]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Tilgangur frumvarpsins er að endurskilgreina gildissvið laganna með hliðsjón af því markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun, jafnvægi og svæðisbundinni þróun í samræmi við skipulag og áætlanir einstakra landshluta á borð við áfangastaðaáætlanir eða, með leyfi forseta, „Destination Management Plans“. Ákvæðið mun því endurspegla áherslur á svæðisbundna þróun, sem er verkefni sem svæðin hafa unnið að undanfarið og við í stefnumótun, og jafnari dreifingu ferðamanna. Svæðisbundin þróun mun í framhaldinu fá sjálfstætt vægi við mat stjórnar sjóðsins á umsóknum um styrki úr sjóðnum.

Aðrar breytingar sem frumvarpið felur í sér eru þær að skýrt er kveðið á um að ferðamannaleiðir, með hliðsjón af skilgreiningu á því hugtaki í lögum um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, eru styrkhæfar. Hér er eingöngu átt við gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir en akvegir koma ekki til álita enda heyra verkefni af þeim toga undir annað ráðuneyti, auk þess sem þau eru almennt af stærðargráðu sem rúmast á engan hátt innan fjárheimilda þessa sjóðs.

Þá er í frumvarpinu lögð til einföldun á núgildandi ákvæði laganna um verkefni sem sjóðurinn veitir styrki til, auk þess sem tekinn er af allur vafi um að framkvæmdir á landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum eru ekki styrkhæfar. Hér er því lagt til að fellt verði brott undantekningarákvæði frá árinu 2017 sem ætlað var að tryggja að verkefni féllu ekki á milli skips og bryggju. Þar sem nú er komin góð reynsla á samspil Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og landsáætlunar er ekki lengur talin ástæða til að mæla fyrir um slíka undantekningu í lögunum.

Lög um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða voru upphaflega sett árið 2011 og með úthlutun úr sjóðnum hefur á undanförnum árum verið unnið þrekvirki í uppbyggingu og viðhaldi ferðamannastaða um allt land sem snýr að öryggismálum og náttúruvernd.

Mér fannst mikilvægt að leggja núna til þessa breytingu um endurskilgreiningu á gildissviði laganna með hliðsjón af þeirri vinnu sem farið hefur fram undanfarin ár, einkum í tengslum við stefnumótun stjórnvalda og gerð áfangastaðaáætlana landshlutanna. Stefna stjórnvalda sem birtist m.a. í framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030 miðar að því að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi í sjálfbærri þróun. Þar horfir til þriggja stoða, efnahagslegs, samfélagslegs og umhverfislegs jafnvægis. Það er auðvitað örlítið undarlegt að vera að fjalla um þessa sjálfbærni með tilliti til þriggja stoða, eins og efnahagslegrar stoðar, í þessu ástandi en við vonumst til þess að komast á þann stað eins fljótt og kostur er. Til að hjálpa okkur við að ná að halda jafnvægi höfum við undanfarin misseri jafnframt þróað stjórntækið Jafnvægisás ferðamála sem sýnir okkur stöðuna á fjölmörgum mælikvörðum á hinum þremur víddum sjálfbærrar þróunar hverju sinni.

Áfangastaðaáætlanir landshlutanna eru síðan hluti svæðisbundinnar þróunar sem hefur sífellt meira vægi við ákvarðanatöku um uppbyggingu ferðamannastaða. Með því að bæta tilvísun til svæðisbundinnar þróunar inn í gildisákvæði laganna næst fram áþreifanlegur samfélagslegur ávinningur með því að taka aukið tillit til stefnumörkunar nærsamfélags á hverjum stað fyrir sig. Ég hef lengi talað fyrir því að svæðin viti best hvert fyrir sig hvernig hag þeirra sé best fyrir komið.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir þann ólgusjó sem ferðaþjónustan siglir nú í gegnum tel ég mikilvægt að við höldum þeim kúrs sem þegar hefur verið ákvarðaður og gefum ekki afslátt af þeim leiðarljósum sem við höfum sett okkur um að vera leiðandi í sjálfbærri þróun. Það er staðföst trú mín að með þeim hætti munum við ná að sigla í gegnum brimið og koma út enn sterkari og enn betur undirbúin á lygnari sjó. Þess vegna tel ég mikilvægt að við nýtum þennan krefjandi tíma vel til að búa í haginn fyrir bjartari tíð, m.a. með lagabreytingum á borð við þær sem ég mæli hér fyrir.

Að lokinni umræðunni legg ég til að málið gangi til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.