150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[12:58]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni í þessu, að sjálfsögðu er eðlileg krafa að fólk með fötlun geti upplifað og notið þess sem Ísland hefur upp á að bjóða. Ég get bara reynt að setja mig í þau spor hversu þreytandi það hljóti að vera að þurfa ávallt að minna á rétt sinn sem við hin njótum án þess að þurfa að hugsa um það. Ég er algjörlega með þeim í liði þegar kemur að því. Ég vona að fólk þurfi ekki að kalla eftir því að einstaklingar, hvar sem þeir eru í kerfinu, setji upp sérstök gleraugu til að gleyma því ekki.

Þetta gengur einfaldlega of hægt. Við erum ekki komin lengra í þeirri baráttu en svo að hagsmunasamtök þurfa að berjast fyrir því í hvert og eitt sinn. Stundum virðist það vera þannig að þeir sem eru að vinna í svona framkvæmdum gleymi einfaldlega að hugsa út í það. Það er verkefni sem við þurfum einhvern veginn sameiginlega að vinna að, að ekki sé hægt að gleyma því. Þetta er að sjálfsögðu sjálfsagður réttur eins langt og það nær, þ.e. að við getum sameiginlega tryggt að allir fái að njóta þrátt fyrir að ekki geti allir gert allt á öllum stöðum.

Ég tek undir með hv. þingmanni og ef það er eitthvað frekar sem við getum breytt þegar kemur að framkvæmd í stigagjöf eða öðru slíku er ég opin fyrir því. Lög um mannvirki gilda þegar það á í hlut. Ég er alveg á þeirri skoðun að við getum öll gert töluvert betur þegar kemur að aðgengi fyrir alla.