150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

barnalög.

707. mál
[14:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, með síðari breytingum, um skipta búsetu barns. Þetta er bara frábært frumvarp að flestu eða öllu leyti. Það besta í því er um réttindi barnsins og þetta er mikið framfaraskref. En það eru ákveðin atriði sem ég hef samt áhyggjur af og kemur strax í 1. gr., með leyfi forseta:

„Ef forsjárforeldrar hafa samið um lögheimili og fasta búsetu barns hjá öðru þeirra hefur það foreldri sem barnið á lögheimili hjá heimild til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins …“

Þarna undir er val á leikskóla, grunnskóla, reglubundið tómstundastarf og annað. Nú getur reglubundið tómstundastarf verið mjög fjölbreytt og mjög kostnaðarsamt. Væri ekki nær að foreldrar kæmu sér strax saman um hvað sé eðlilegt í þessu samhengi? Nú gerum við okkur fulla grein fyrir því að fjárhagsstaða foreldra getur verið gjörólík og þess vegna er mjög mikilvægt að það sé ekki strax hlaupið á vegg og byrji strax ágreiningur vegna þess að þarna gæti annar aðilinn þurft að neita, það foreldri getur ekki staðið undir þeim skuldbindingum sem þarna á að fara í. Ég spyr líka vegna þess að við vitum að eins og staðan er í dag eru margir einstæðir foreldrar sem eru ekki með forræði barna sinna og eru í þeirri aðstöðu að þurfa að borga meðlag og eru mjög skuldsettir og eru í ömurlegri aðstöðu, geta eiginlega ekki veitt börnum sínum eitt eða neitt. Þess vegna þurfum við að tryggja einhverjar lausnir strax og ég spyr ráðherrann hvort hún sé með einhverjar lausnir fyrir þessa einstaklinga sem eru nú þegar í dag í þeirri aðstöðu að vera svo fjárhagslega aðþrengdir að þeir (Forseti hringir.) geta ekki séð um framfærslu barna sinna og geta ekki veitt þeim eitt eða neitt, (Forseti hringir.) eru í þeirri ömurlegu stöðu að geta ekki sinnt börnunum sínum almennilega fjárhagslega.