Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

Störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við áttum hér gott samtal í gær við hæstv. viðskipta- og menningarmálaráðherra og margir af þeim þingmönnum sem upp komu ræddu um stöðu fjölmiðla. Mig langar að halda örlítið áfram með þá umræðu. Í fjármálaáætlun og í kaflanum um fjölmiðla er ljóst að við ætlum að auka töluvert útgjöld til málefnasviðsins fjölmiðla, fara úr rúmum 6 milljörðum upp í rúma 8 milljarða. Það er auðvitað þannig að langstærsti hluturinn af þessum milljörðum rennur til RÚV, risastóra ríkisfyrirtækisins á þessum markaði. Ég ætla ekki að segja að við eigum að leggja niður RÚV en það hlýtur að vera umhugsunarvert þegar við horfum á stöðu fjölmiðla á Íslandi að það sé einn miðill sem taki allt þetta fjármagn til sín frá ríkinu auk þess að vera á auglýsingamarkaði og taka þar um 2,5 milljarða á ári. Við höfum heyrt lýsingar frá þeim sem reka einkarekna fjölmiðla á því hversu agressífir sölumenn RÚV eru og hversu ágjarnir þeir eru í að ná í þær takmörkuðu auglýsingatekjur sem undir eru. Þess fyrir utan þá sjáum við líka fréttir af annars konar ríkisstuðningi, eins og við veitum í gegnum Kvikmyndasjóð, þar eru verkefni sem RÚV stýrir eða er í samstarfi um búin að taka til sín alla úthlutunina, 200 milljónir núna síðast. Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir okkur sem hér stöndum og ekki síst ef við horfum svo á umsagnir sem hafa verið að berast okkur í allsherjar- og menntamálanefnd frá þeim sem eru þó að skapa og eiga þetta efni, þ.e. leikarana og listamennina, þegar þau segja að hér sé ekki verið að greiða eftir kjarasamningum, (Forseti hringir.) engar úthlutanir frá Kvikmyndasjóði taki mið af kjarasamningum eða tryggi réttindi þessa fólks. Þetta, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) hlýtur að vera eitthvað sem við þurfum að taka upp hér á þessum vettvangi.