Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Málefni hælisleitenda eru stjórnlaus á Íslandi eins og hæstv. ráðherra hefur viðurkennt. Þetta er afleiðing, eins og ég hef margoft bent á, af stefnu stjórnvalda og um leið aðgerðaleysi. Vandinn eykst ár frá ári, mánuð frá mánuði, viku frá viku og dag frá degi. Það sem af er þessa árs hafa fleiri einstaklingar komið til að sækja um hæli á Íslandi en til Danmerkur og þá er ég ekki að tala hlutfallslega. Fleiri einstaklingar hafa komið til Íslands að sækja um hæli heldur en til Danmerkur. Hlutfallslega er þetta auðvitað meira en tuttugufalt líklega núna. En við sjáum engin viðbrögð frá þessari ríkisstjórn í samræmi við tilefnið. Áætlanir um kostnað við málaflokkinn hafa jafnan ekki gengið eftir, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Telur hæstv. ráðherra að þær áætlanir sem birtast í þessari fjármálaáætlun muni ganga eftir varðandi þennan málaflokk? Og sér hæstv. ráðherra ekki tilefni til að líta á heildarkostnaðinn? Því að sá kostnaður sem skráður er á þennan málaflokk tekur bara til beins kostnaðar en ekki hins fjölþætta afleidda kostnaðar. Bara í Morgunblaðinu í dag, á forsíðu blaðsins, var til að mynda fjallað um gríðarlega aukningu tannlæknakostnaðar og sett í samhengi við þessa þróun. Það er bara eitt dæmi af ótal mörgum.

Spurningarnar eru þessar: Telur hæstv. ráðherra að núverandi áætlanir, þær sem hér birtast, muni ganga eftir varðandi kostnað, beinan kostnað, og hafa einhverjar tilraunir verið gerðar til að leggja mat á heildarkostnaðinn, hinn raunverulega kostnað?