Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:12]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér erum við að ræða auðvitað gríðarlega krefjandi verkefni. Ég hef orðað það þannig, eins og hv. þingmaður nefndi, að það hafi verið ákveðið stjórnleysi í þessum málum. Þá er ég að vitna til þess að sá straumur sem hingað hefur komið hefur nánast verið stjórnlaus. Verkfærin sem við höfum haft í verkfærakistunni til að bregðast við í rauninni og reyna að þrengja að krananum þannig að straumurinn sé ekki svona mikill hafa verið mjög takmörkuð og í engu samræmi við það sem gerist og gengur í löggjöf nágrannalanda okkar og bara víðast í Evrópu. Þetta hefur leitt það af sér, eins og hv. þingmaður kom inn á, að við erum hér með hlutfallslega langmestan fjölda af umsækjendum. Ég sá einhverjar tölur um daginn um að við séum í þriðja sæti Evrópuþjóða ef þú miðar við þá sem eru að leita eftir vernd á hverja 100.000 íbúa. Hvort það er Kýpur og eitthvert land annað, sem ég man ekki hvað var, sem voru á undan okkur og við erum í þriðja sæti. Við erum langt fyrir ofan öll nágrannalönd okkar í þessu, eins og hv. þingmaður reyndar kom inn á. Það er auðvitað algerlega óásættanlegt. Aðstæðurnar eru orðnar þannig að kerfin okkar eru hætt að ráða við þetta. Við þurfum nú ekki að fara lengra en bara á höfuðborgarsvæðið en til að fara í ástand sem er orðið algerlega óviðráðanlegt þá er hér á Suðurnesjunum bara slíkt ástand orðið uppi, því miður. Við verðum auðvitað að bregðast við þessu með einhverjum og öllum tiltækum ráðum þannig að við getum þá sómasamlega tekið á móti því fólki sem við þurfum að taka á móti, eigum að taka á móti og viljum taka á móti og veitt því þá þjónustu sem þarf að veita því. Varðandi þennan kostnaðarlið þá er hann gríðarlegur. Og hvort áætlunin muni standast, ég vona það en ég veit það ekki. Þetta er þannig liður að það er mjög erfitt að spá fyrir um það. En ég tek hjartanlega undir það með þingmanninum að það er mjög mikilvægt að við förum að reyna að ná utan um þennan heildarkostnað vegna þess að sá kostnaður sem alltaf birtist í fjárlögum og slíku, það er í raun kostnaðurinn (Forseti hringir.) bara við móttökuna og vinnuna á meðan fólkið er í þeirri málsmeðferð (Forseti hringir.) en heilbrigðiskostnaður, kostnaður skólakerfisins o.s.frv., hann er ótalinn þar og hann er gríðarlegur.