Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:29]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Hún kannski kemur bara inn á almenna umræðu um gæði menntunar á Íslandi og hvar tækifærin eru. Hv. þingmaður vísar í uppskiptingu ráðuneytanna og þar vil ég segja að ég held að það hafi verið heillaskref fyrir háskólasamfélagið að tengjast betur áskorunum samfélagsins eins og þau eru að gera í nýju ráðuneyti. Ég held að það hafi verið mikilvægt miðað við þá umræðu sem við höfum séð að fá loksins kannski að fræðast svolítið meira um háskólamálin og fá tækifæri til að gera betur þar. Úr samstarfi háskóla, sem við erum einmitt að fara að halda áfram með núna í nýrri fjármálaáætlun, þá fengum við og vorum líka að styðja við verkefni sem snúa að því að hjálpa nemendum að undirbúa sig betur undir háskólanám. Það eru þá sérstaklega þeir nemendur sem treysta sér illa í svokallaðar STEAM-greinar, sem eru vísindi, stærðfræði, verkfræði, tölvunarfræði o.s.frv. Þá eru háskólarnir allir að fara að taka sig saman að undirbyggja leiðir til að hjálpa nemendunum að vera öruggari og undirbúnari undir háskólanám.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru auðvitað tækifæri á Íslandi að ræða almennt um aukin gæði menntunar á öllum stigum. Við þurfum að setja það á dagskrá. Við hæstv. mennta- og barnamálaráðherra eigum auðvitað samtöl og það er mjög mikilvægt að samtal á milli okkar ráðuneyta séu mjög virkt og mikið gagnvart því að nemendur séu undirbúnir og að við tölum um menntamálin í einni beit líka. Við erum auðvitað að horfa á ákveðnar áskoranir í háskólanámi, hvort sem það er brottfall drengja, sem tengir sig líka síðan alveg niður í grunn-, ef ekki leikskóla, grunn- og framhaldsskóla, af hverju við erum að sjá svo fáa drengi skila sér inn í háskóla. Við erum að sjá hér stóraukningu inn í háskóla, við erum að sjá 6 milljarða aukningu. Ég held að það sé mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að við náum umræðu líka um gæði náms á öllum skólastigum (Forseti hringir.) svo að ekkert skólastig verði þar út undan. Ég trúi því að við séum að ná þeirri umræðu um háskólastigið vel þessi misserin.