Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:36]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti, hv. þingheimur, hæstv. ráðherra og kæra þjóð. Mig langar að tala aðeins um þessi blessuðu námslán. Námslánin núna bera háa vexti, annars vegar 3% verðtryggt eða 9% óverðtryggt. Eins og fram hefur komið hefur framfærsla hækkað, hún er há, og námsmenn þurfa að vinna með sínu námi til að ná endum saman. En námslán skerðast vegna atvinnutekna og það er það sem málið snýst um hér og nú. Ég spyr ráðherra: Hvað er því til fyrirstöðu, bara með einu pennastriki, að leyfa þeim nemendum sem eru með námslán að vinna ótakmarkað? Ég vil meina að hafi þeir tækifæri til þess að vinna ótakmarkað þá sé mjög líklegt að þeir tækju minni námslán. En þeir vita af námsláninu ef þeir þurfa á því að halda. Ég hef þá skoðun að fólk sem vinnur með skóla, það er rosalega tilbúið út í atvinnulífið þegar það klárar sína menntun og ég fer ekki ofan af þeirri skoðun minni. Ef nemendur taka minni námslán þá skulda er minna þegar þar að kemur og þar af leiðandi borga minni vexti. Ofan á allt annað þá vantar, t.d. í þessari atvinnugrein sem ég þekki hvað best, sem er þjónusta við ferðamenn og matsölustaðir, þá vantar vinnukrafta á kvöldin og um helgar þegar nemendur eru einmitt í fríi og myndu gjarnan vilja vinna með sínu námi. Þess vegna græða allir á því. Það kostar ríkið eða sjóðinn ekki neitt (Forseti hringir.) að leyfa nemendum að vinna með náminu ótakmarkað. Því segi ég: Hvað er því til fyrirstöðu að leyfa þeim að vinna ótakmarkað án skerðinga?