Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar í fyrri ræðu minni að fjalla aðeins um fjarskiptahlutann. Það er því miður þannig í fjármálaáætluninni að það er dálítið erfitt að sjá fjármögnunina á milli þessara tveggja þátta sem falla undir svið 11 sem eru samgöngu- og fjarskiptamál. Þar sem samgöngur eru dálítið stór partur af þessu þá er erfitt að átta sig á hlutunum. Kannski er eitthvað sem við getum horft til í framtíðinni að þegar það eru málaflokkar sem skiptast á milli ráðherra þá væri nú gott að hafa skiptinguna á fjármögnuninni meira á hreinu.

Hæstv. ráðherra nefndi hér áðan netöryggi og netöryggismál og að það þurfi aukinn fókus á það. Við erum hjartanlega sammála á því sviði. Það er líka talað um í fjármálaáætluninni að ljúka þurfi ljósleiðaravæðingunni og það þurfi að bæta tengingar á stofnvegum landsins. Það er samt dálítið þannig þegar maður les fjármálaáætlunina, fjarskiptakaflann, að það lítur út, eins og stendur hreinlega í áhættuþáttakaflanum, að það sé að óbreyttu hætta á að uppbygging á samfelldu háhraðaneti nái ekki fram að ganga. Líka virðist vera að jafnvel sé ekki nægilegt fjármagn sett í netöryggið. Ég heyrði hæstv. ráðherra tala um fjarskiptasjóð áðan en 500 millj. kr. á þessu tímabili er engan veginn nóg ef við ætlum að tækla þessi mál. Mig langaði að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig hún sér fyrir sér að gera þetta.